135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:13]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða afar viðamikla tillögu til þingsályktunar um viðauka við samgönguáætlun. Það er von að mörgum hv. þingmönnum bregði þegar þeir hafa skyndilega lokið ræðutíma sínum og eiga mikið ósagt því að það er varla gerlegt að ræða í einhverjum smáatriðum um samgöngumál, og ekki bara vegamál heldur hafnamál og flugmál sem eru innifalin í þessu, á svo stuttum tíma. Þess vegna er ég ekki alveg viss um að það hafi verið góð breyting á sínum tíma þegar menn felldu allar þessar áætlanir inn í eina samgönguáætlun án þess þá að breyta ræðutíma eða þeim möguleika sem menn hafa til að ræða einstaka hluta áætlunarinnar í sæmilega skipulegu formi.

Ég vil segja fyrst, virðulegi forseti, um það sem er nýmæli í þessari ályktun að ég fagna því að hér er í fyrsta skipti lagt til að veita fjármagn til jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Það hefur verið baráttumál lengi að koma þeim göngum á og smám saman hefur það komist áleiðis í umræðunni og síðar í þingskjölum en það er í fyrsta skipti sem segja má að formlega sé gerð tillaga um fjárveitingu til verkefnisins. Ef þingið fellst á hana má segja að málið sé í höfn að svo miklu leyti sem það getur verið í höfn áður en framkvæmdir hefjast. Ég mundi telja litlar líkur að hætt yrði við málið eftir að þetta hefur verið samþykkt.

Ég legg mikla áherslu á það, virðulegi forseti, þó að það séu mörg verkefni á Vestfjörðum sem þörf er á að ráðast í að staðið verði við áform um Dýrafjarðargöng. Ég held að eitt það allra mikilvægasta fyrir Vestfirðinga sé að tengja saman firðina, norðursvæðið og suðursvæðið, í eina samgöngulega og í framhaldinu atvinnulega heild.

Í öðru lagi tel ég, og vildi biðja hæstv. ráðherra að huga að því, mikla þörf á að endurskoða áform um að leggja niður ferjusiglingar með flóabátnum Baldri. Eins og hæstv. ráðherra þekkir hefur verið gert ráð fyrir því að þegar vegurinn um Barðastrandarsýslu verður fullgerður leggist ríkisstyrktar ferjusiglingar yfir Breiðafjörðinn af. Nú er ljóst að það mun seinka verulega að ljúka þeim vegi og því nauðsynlegt að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að áform um ferjusiglingar fylgi þeirri breytingu og að þær verði á næstu árum með þeim hætti sem verið hefur þar til a.m.k. vegurinn hefur verið kláraður sem vonandi verður fyrr en síðar. Það er greinilegt á öllu, virðulegi forseti, að atvinnufyrirtæki í Barðastrandarsýslu leggja mikið traust á að geta flutt afurðir sínar og aðföng til sín með flóabátnum þannig að ég held að það verði að endurskoða gildandi áform um að draga úr styrkveitingu og siglingum um fjörðinn á næstu árum. Það er svo síðari tíma verkefni að mínu viti að taka ákvörðun um hvort siglingar yfir flóann verði áfram styrktar þegar vegurinn verður uppbyggður. Við þekkjum það annars staðar frá að yfirleitt er reynslan sú að þegar kominn er góður vegur velja menn frekar að keyra veginn og þörfin fyrir ferjusiglingar leggst sjálfkrafa af. Það er ekki alveg víst að það gerist í þessu tilviki vegna aðstæðna en það er eitthvað sem menn þurfa að skoða þegar þar að kemur og meta þá.

Ég fagna því einnig sem er hér í áætluninni um Vaðlaheiðargöng. Ég tel mikla þörf á að ráðast í þá framkvæmd og Norðfjarðargöngin. Ég vil hins vegar segja um fjármögnunina á Vaðlaheiðargöngum og reyndar tvöfölduninni á Suðurlandsveginum að ég hef efasemdir um að fara þá leið að dreifa kostnaði ríkisins á 25 ár. Með því móti sýna menn ekki raunverulegan kostnað sem fylgir þeirri ákvörðun að ráðast í framkvæmdirnar. Ég held að þingið verði að taka ákvörðun um fjármögnun og greiðslu á kostnaði á sama tíma og tekin er ákvörðun um framkvæmdina sjálfa. Það er ekki góður siður að mínu viti að slíta þetta í sundur. Við höfum eitt dæmi sem ekki er gott og hefur m.a. verið gagnrýnt af Ríkisendurskoðun, loforð um 35 ára framlög ríkisins til greiðslu á tónlistar- og ráðstefnuhúsi í Reykjavík. Ég tel þá leið sem þarna er farin ekki góða, að dreifa kostnaðinum með þessum hætti.

Ég held að það sé að mörgu að hyggja í þessu. Í fyrsta lagi þurfa stjórnmálamenn að varast að lenda inn á þær brautir sem mér finnst að menn hafi gert um of á síðustu árum, að gefa loforð um að velja dýrustu lausnina á hverju vandamáli sem við er að glíma. Menn verða að velja góðar lausnir en verða að hafa hóf og stilla sig um yfirboð í þeim efnum því að þegar menn lenda út á þær brautir er áður en menn vita af búið að ráðstafa tugum milljarða króna til úrlausnar á verkefnum umfram það sem þörf er á. Það bitnar á öðrum verkefnum því að menn eyða ekki sömu krónunni tvisvar.

Eitt af því sem menn hafa leiðst út í villigötur með að mínu viti er umræðan um 2+2 vegi. Loforð um slíkar úrlausnir eru langt umfram það sem rök standa til. Það er miklu kostnaðarmeira að fara í 2+2 vegi en 2+1 og ég held að menn eigi að horfa á að aðalatriðið í því er að aðgreina akstursleiðir og fækka tengingum inn á þessa vegi frá öðrum hliðarvegum. Það er það sem þarf að gera, þar skapast slysahættan. Af því að í umræðunni var nefnt að það þyrfti að huga að höfuðborgarsvæðinu vegna dauðaslysanna vil ég minna á að á síðasta ári voru öll dauðaslysin nema eitt á vegum utan höfuðborgarsvæðisins. Þar er einmitt þörfin fyrir aðgerðir til að auka öryggi manna í umferðinni. Og það er ekki bara fólkið sem býr á landsbyggðinni sem notar þá vegi, heldur nota líka höfuðborgarbúar þessa vegi að sumri, og vetri til í vaxandi mæli.

Ég hef orðið áhyggjur af Sundabraut vegna þess að mér sýnist sem málið muni lenda í sjálfheldu yfirboða pólitískra stjórnmálamanna sem hafa gleymt því að þeir þurfa þegar upp er staðið að bera ábyrgð á kostnaðinum. Það eru farnar að koma spurningar um þörfina fyrir Sundabraut. Sundabraut er fyrst og fremst, sýnist mér, til að greiða fyrir umferð frá Grafarvogi í miðbæ Reykjavíkur. Það er fyrst og fremst innanbæjarumferð. Umferðin sem kemur norðan að eða fer norður, til og frá höfuðborgarsvæðinu, er ekki meiri en svo að fjórar akreinar um Mosfellsbæinn duga vel fyrir þá umferð, það þarf ekki meira til að mæta henni þannig að hún geti gengið greitt í gegn. Ég held að menn verði aðeins að hugsa þessi mál áður en lengra er haldið og menn steypa sér út í tugmilljarða króna framkvæmdir.

Ég held líka, virðulegi forseti, að menn þurfi að huga að því að á höfuðborgarsvæðinu er ekki sjálfgefið að mæta öllum kröfum. Það er hvergi í stórborgum. Bæði í Lundúnaborg og Stokkhólmi hafa yfirvöld ákveðið að grípa til aðgerða til að takmarka umferð. Biðtíminn hér á höfuðborgarsvæðinu á umferðarálagi, hvort sem er að morgni eða síðdegis, er ekki meiri en svo að aksturstíminn er 10–15 mínútur lengri en ella væri. Hvað er réttlætanlegt að leggja út í mikinn kostnað til að stytta þennan biðtíma um fimm mínútur? Eða hvað telja menn hæfilegt í þeim efnum? Ætla menn að verja 30 milljörðum króna til að greiða fyrir umferð á mestu álagstímum þannig að menn séu fimm mínútum fljótari en ella?

Ég hlustaði á mjög fróðlegt viðtal í útvarpi við prófessor í umferðarfræðum uppi í Háskóla Íslands og hann sagði einfaldlega: Menn verða auðvitað að láta markaðslögmálin vinna sitt verk að nokkru leyti. Þegar of margt fólk er komið saman á einn stað er eðlilegt að fólk færi sig til, fari þangað sem vandinn er minni. Að hluta til eiga lausnirnar að vera þær að fólkið flytur sig til, eins og það er að gera. Að hluta til eiga menn auðvitað að mæta þessum nýju kröfum en ég geld varhuga við því, virðulegi forseti, að menn stökkvi til og lofi lausnum á öllum vanda á öllum gatnamótum á öllum tímum.