135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:23]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Bara örstutt, vegna atriða sem komu fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar get ég tekið undir það með honum að það er sjálfsagt mál að menn velti því fyrir sér hvað eigi að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að leysa vanda sem er kannski, a.m.k. í samanburði við margt það sem menn þekkja í löndum í kringum okkur og víðar, ekkert endilega mjög stórkostlegur þó að hann sé tiltölulega nýr fyrir okkur Íslendinga, þ.e. umferðarteppur á höfuðborgarsvæðinu á vissum álagstímum. Það er eðlilegt að menn velti þessu fyrir sér og ég tek alveg undir það með honum, eða hvort menn vilji hugsanlega frekar beina fjármunum í annan farveg, eins og t.d. í bættar almenningssamgöngur innan höfuðborgarsvæðisins. Það eru auðvitað líka aðgerðir í samgöngumálum og geta verið þjóðhagslega miklu hagkvæmari.

Varðandi Sundabrautina vil ég aðeins segja að ég er ekki alveg sammála því mati þingmannsins að hún sé fyrst og fremst innanbæjarlausn, þ.e. milli Grafarvogs og miðborgar Reykjavíkur. Auðvitað er hún það, það er auðvitað mikilvægt hlutverk hennar að leysa þann vanda en hún hefur fleiri hlutverk, m.a. á hún að vera ein viðbótaræð út af höfuðborgarsvæðinu sem margir telja að skipti máli frá sjónarmiði um öryggis. Síðan er ekki æskilegt og varla boðlegt til langframa að vaxandi umferð vestur og norður um land eða frá Norður- og Vesturlandi til höfuðborgarinnar, þar með talið þungaflutningar, fari í gegnum byggðarlagið sem Mosfellsbær er. Þessi þjóðbraut klýfur byggðarlagið Mosfellsbæ algerlega í tvennt þannig að það eru margvísleg svona rök.

Síðan hitt, ég held að Sundabraut sé kannski besta leiðin til að stytta vegalengdina á milli, við skulum segja, Reykjavíkur og Akureyrar, a.m.k. í tíma talið, ekki endilega í kílómetrum en í tíma örugglega. Það er þjóðhagsleg hagkvæmni í því. (Forseti hringir.) Þessi braut hefur því margvíslegu hlutverki að gegna.