135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að nokkuð er verið að bæta við framkvæmdir í samgöngumálum þessi missirin og hér eru nokkrar viðbætur í þeim efnum á ferð í formi viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun. Það er tvímælalaust skynsamlegt og aðstæður bjóða upp á það að auka nú í samgönguframkvæmdir sem voru náttúrlega hlutfallslega mjög litlar á ákveðnu árabili og því borið við að það væri helsta viðleitni stjórnvalda til að halda aftur af þenslu. Það eru engu að síður nokkur atriði sem ég vill koma aðeins inn á.

Ég fagna því í fyrsta lagi að mikilvægar framkvæmdir í kjördæmi mínu, Norðausturkjördæmi, fá þarna úrlausn sem sumar hafa lengi verið á óskalistanum eins og lenging Akureyrarflugvallar. Ég fagna því reyndar líka að þar eru flughlöð, aðflugs- og leiðsögubúnaður fyrir sjálfvirkar lendingar, ILS aðflugs- og leiðsögubúnaður sem er ákaflega mikilvægur fyrir flugvöll sem ætlar sér að verða fullgildur alþjóðaflugvöllur með vonandi innan skamnms reglubundnu millilandaflugi allt ári. Ég bæti því svo við að vísu að það þolir náttúrlega ekki neina bið að stækka flugstöð á Akureyri og það verður að koma því máli í höfn.

Sömuleiðis er það svo með Vaðlaheiðargöng að það er gott að hér sé að einhverju leyti eytt þeirri óvissu sem verið hefur uppi um það hvort og þá hvernig best er að ráðast í þá framkvæmd. Þetta eru að vísu ekki gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax eins og hæstv. samgönguráðherra lofaði í kosningabaráttunni og fór mikinn og ég held að hæstv. ráðherra verði að þola að það sé aðeins rifjað upp að ráðherra fór þar allógætilega. Það kom m.a. í hlut þess sem hér stendur að reyna að taka hann aðeins niður á jörðina, m.a. á framboðsfundi á Akureyri þar sem ég varaði við þessum málflutningi vegna þess ósköp einfaldlega að ég var þeirrar skoðunar að það væri ekki málinu til framdráttar og það yrði mjög ólíklega þannig að hægt yrði að efna loforð um að ráðast strax í gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng, ólíklegt að um það yrði pólitísk samstaða og jafnvel erfitt að réttlæta það með samanburði við aðrar hliðstæður eða þá hliðstæðu sem auðvitað blasir við og eru Hvalfjarðargöng. Vaðlaheiðargöng eru um mjög margt sambærileg framkvæmd, þetta er stytting á leið þar sem auðvelt er að koma gjaldtöku við. Þetta er algjörlega sérstakt verkefni þar sem helstu rökin eru styttingin og það hagræði sem af framkvæmdinni er og það er ekkert óeðlilegt við þær aðstæður að sú umferð sem nýtur verulega góðs af hagræðingunni í formi minni tíma, eldsneytissparnaðar og mikilla þæginda t.d. yfir veturinn, leggi þá eitthvað af mörkum á móti með nákvæmlega sama hætti og menn réttlættu og réttlæta enn gjaldtökuna í Hvalfjarðargöngum.

Það er langt síðan ég fékk þá tilfinningu að göngin ættu að geta séð um sig sjálf að svona hálfu leyti. Í árdaga þessara hugmynda reiknaði ég það einu sinni út og notaði þá viðmið frá Hvalfjarðargöngum og fékk út þá tölu að göngin ættu að geta séð um svona 45–60% af kostnaði eftir því hvaða forsendur maður gaf sér með fjármagnskostnað og fleiri þætti, þannig að hér er farið mjög nálægt því ef þetta verður 50:50.

Þetta eru sem sagt ekki gjaldfrjáls göng strax eins og stóð á borðanum fræga við Ráðhústorgið og vonandi lærir hæstv. ráðherra af þessu svolitla lexíu úr því að örlögin voru svo glettin við hann að gera hann að samgönguráðherra hafandi lofað þessu hástöfum og þar með komst hann auðvitað í einstaka aðstöðu til að efna kosningaloforðið um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax en verður nú að játa sig sigraðan í því og leggur hér til frumvarp um að gjald standi undir helmingi kostnaðarins. Ég ætla ekkert að elta hæstv. ráðherra uppi frekar í þessum efnum en mér finnst allt í lagi að þetta sé í þingtíðindunum að svona er þessu komið og þarna er þá eitt loforð af þessu tagi farið fyrir lítið. Hvort hæstv. ráðherra skrapaði upp einhver atkvæði á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu út á þetta skal ósagt látið en hann er þá ólíklegur til þess að fá þau aftur því að kjósendur eru heldur lítið fyrir það að láta fara svona með sig.

Það er annað og öllu verra sem ég hlýt að nefna í þessum efnum. Ég vara hér mjög við þeirri braut sem boðuð er eða gefið er í skyn að farið verði út á varðandi hina svokölluðu aðferð við einkafjármögnun. Hvað varðar Vaðlaheiðargöngin er í mínum huga einboðið að ríkið á að leggja sinn hlut fram á byggingartímanum. Þannig verða þau mun ódýrari og auðveldara fyrir framkvæmdaraðilann að bjóða í verkið ef hann þarf ekki að fjármagna allan hlut ríkisins allan framkvæmdatímann og síðan er þetta greitt með jöfnum greiðslum kannski á 25 árum. Ríkið á ekki að taka lán í gegnum framkvæmdaraðila með þessum hætti. Ef ríkið þarf að taka lán á það að gera það sjálft með skuldabréfaútgáfu eða einhverjum öðrum hætti og borga sinn hluta framkvæmdarinnar strax, það er langeðlilegast.

Ég vil líka spyrja í öðru lagi í þessu sambandi og ég vona að hæstv. samgönguráðherra geti gefið mér þar skýr og jákvæð svör: Er það ekki algerlega á hreinu að þessi framkvæmd verður sama eðlis og Hvalfjarðargöngin að því leyti að þegar samningstíma lýkur á ríkið mannvirkið og það verður hluti af vegakerfinu? Ég ætla rétt að vona að mönnum detti ekki annað í hug.

Varðandi hins vegar Suðurlandsveginn er það alveg fráleitt að mínu mati að fara út á þá braut sem hér er boðuð, að kalla það einkaframkvæmd sem ríkið á síðan að borga að fullu með framlögum á 25 árum er alveg út í loftið. Ef ríkið þarf lán þá tekur það lán og býður verkið út og lætur einkaframtakið sýna hvað það getur framkvæmt verkið á hagkvæman hátt, þetta snýst ekkert um annað. Þetta er bara önnur aðferð til að láta einhvern verktaka koma að því að byggja veginn en það er það fyrirkomulag sem við höfum hvort sem er í dag, því að allar stærri framkvæmdir í vegamálum í landinu eru boðnar út og framkvæmdar af einkaaðilum. Þetta er orðaleikur og þetta er eiginlega skrípaleikur. Menn hengja sig í þetta af því að eitthvert tryggingafélag hélt að það hefði svo mikið vit á vegagerð, tryggingafélag, Sjóvá–Almennar. Hvaðan kemur því þessi óskapa þekking á vegamálum að það geti trompað betur en Vegagerðin sjálf og verktakarnir og allir framkvæmdaraðilarnir?

Þetta er mikil ófæra og það á ekki að fara út á þessa braut auk þess sem það er stefnuleysi að vinna sum verkin með hefðbundnum hætti en önnur svona. Hvers vegna á að bjóða út eina tiltekna leið í einkaframkvæmd út frá höfuðborgarsvæðinu en ekki hinar? Það er vonandi loksins að hilla undir endann á því að Reykjanesbrautin klárist, unnin á hefðbundinn hátt, hefði mátt takast betur, sérstaklega hvað varðar verktaka. En ég held að það sé almennt ekki deilt um það og fyrir liggja skýrslur og úttektir Ríkisendurskoðunar og fleiri aðila um að það er ódýrast að gera þetta svona. Ríkið fær lán á hagstæðustum kjörum ef það þarf að taka lán og menn hafa löngu fastmótað það verklag að verktakar byggja síðan vegina og ríkið á þá og rekur þá og heldur þá og þannig á það að vera. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að vaxa af því að slá þessa vitleysu niður. Hér er að vísu vonandi ekki verið að tala um að fara vitlausustu og dýrustu leiðina af öllum sem sumum hefur dottið í hug, þ.e. svokallaða skuggagjaldaleið, sem hefur reynst mjög illa, en þetta er ekki framfaraspor að mínu mati nema síður sé.

Ég vil auðvitað fagna öðrum áföngum hér eins og þeim sem bætast við á norðausturleið og víðar sem að sjálfsögðu eru jákvæðar og auðvitað löngu tímabært að það hilli loksins t.d. undir það að leiðin frá Húsavík og með ströndinni til Þórshafnar klárist. Þá er eftir og stendur upp á okkur þingmenn að finna leiðir til þess að klára bútana sem út af standa á Langanesströnd og þá er loksins hægt að fara að segja að þetta sé komið í lag og nútímavegasamgöngur séu að komast á á norðausturhorninu og vonandi styttist í það líka að það gerist á Vestfjörðum á því svæði sem búið hefur við langlakastar samgöngur að þessu leyti.

Svo vil ég segja eitt að lokum um blessað höfuðborgarsvæðið og leiðirnar út frá því. Ég legg til að hæstv. samgönguráðherra skipi sérstakan starfshóp sem fái það verkefni með aðild sveitarfélaganna að móta eina samræmda stefnu á faglegum grunni um það hvernig samgöngumálum út frá höfuðborgarsvæðinu er háttað, meginumferðaræðunum er háttað. Þá á ég við bæði hvernig lausnir eru valdar í sambandi við samgöngumál og hvaða staðlar verða lagðir til grundvallar. Þetta er tómt rugl eins og þetta er, menn yfirbjóða hver annan, það er jafnvel lagst svo lágt að fara inn í umræðuna þegar orðið hafa hörmuleg slys og reynt að pína vegina upp um staðal við það. Það eru 2+2 og 2+1 og allt í tómu rugli, engin fagleg nálgun. Það á auðvitað að leggja hér fagleg viðmið til grundvallar og byggja vegina í samræmi við umferðarspár og með slysavarnir í huga og annað því um líkt og það á að vera markmið að nýta peningana sem best til að draga úr slysum m.a. Þá er vænlegt að komast þrisvar sinnum lengri leið með 2+1 vegi ef það er nóg og fullnægir umferðarþörfunum. Stjórnmálamenn verða stundum að standa í lappirnar og láta ekki (Forseti hringir.) umræðuna fara bara út í einhverja vitleysu. Það vantar samræmda stefnumörkun og ég skora á samgönguráðherra að reyna að koma þessum málum í farveg.