135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta þingmál, aðrir fulltrúar þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið efnislega yfir þingsályktunartillöguna.

Mig langar hins vegar til þess að beina fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra Kristjáns Möllers í tilefni af þessu þingmáli og ummælum hans í þinginu í október við stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra þar sem hæstv. samgönguráðherra Kristján Möller talaði um kosti einkaframkvæmdar. Hann vakti athygli þingheims á því að í samgönguráðuneytinu væri verið að huga að kostum einkaframkvæmdar á þremur fyrirhuguðum verkefnum, það væru göng undir Vaðlaheiði, tvöföldun Suðurlandsvegar og Sundabraut. Síðan segir hæstv. ráðherra í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Það er skoðun mín að okkur beri að leita leiða til að nýta kosti markaðarins við uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja eins og þeirra sem hér voru nefnd. Það er mögulegt að auka sveigjanleika, viðbragðsflýti og hæfni til að leysa ákveðin verkefni. Sýnt hefur verið fram á að slík verkefni standast frekar tímaáætlanir. Nýjar lausnir eru notaðar og kostnaður hefur minni tilhneigingu til að fara úr böndum, enda er ábyrgð og áhætta fremur verktaka en verkkaupa.“

Hér vísar hæstv. samgönguráðherra væntanlega í einhverjar rannsóknir eða framkvæmdir þegar hann fullyrðir í þinginu að einkaframkvæmdin hafi þessa kosti umfram framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar, sem vel að merkja eru nánast allar og hafa verið um alllangt skeið unnar á útboðsmarkaði, það eru verktakafyrirtæki sem sinna sjálfri framkvæmdinni. Með einkaframkvæmd er hins vegar verið að stíga skrefið enn lengra með því að fela einkaaðila, fyrirtæki, vegaframkvæmdina og umsjón og jafnvel eign tímabundið eða í lengri tíma á vegakerfinu eða hverju sem sett er í einkaframkvæmd.

Ég hef séð athuganir og skýrslur innlendra aðila og erlendra um nákvæmlega þetta sem hæstv. samgönguráðherra fullyrðir svona afdráttarlaust í ræðu í þinginu og vísa í því efni t.d. til úttektar Ríkisendurskoðunar frá því í maí árið 2006. Þar er fjallað um kosti þess og ókosti að nota einkakvæmdarformið við stórframkvæmdir á borð við Sundabraut. Ríkisendurskoðun segir í þessari skýrslu að Hvalfjarðargöng hafi verið sett í einkaframkvæmd vegna þess að pólitískar forsendur hafi ekki verið fyrir gerð ganganna en hvorki hafi verið fólginn í því sparnaður né sé hægt að jafna Hvalfjarðargöngunum við aðra einkaframkvæmd af ýmsum ástæðum. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, þótt ég sé ekki alls kostar sammála öllu því sem kemur fram og m.a. því sem ég vísa hér til. Síðan segir, með leyfi forseta, í framhaldi:

„Niðurstaðan af því sem hér hefur verið rakið er því að framkvæmdir við Hvalfjarðargöng geta hvorki talist hrein einkaframkvæmd í venjulegum skilningi þess orðs né er ástæða til þess að ætla að einkaframkvæmd skili þar betri árangri en hefði hún verið unnin á vegum ríkisins með hefðbundnum hætti. Þá er heldur ekki hægt að draga þá ályktun að sérstök rök mæli með því að fela einkaaðilum gerð og rekstur Sundabrautar, hvort sem er 1. áfanga eða þeirra síðari, fremur en að ráðast í framkvæmdina með hefðbundnum hætti á vegum ríkisins.“

Er þar verið að tala um það fyrirkomulag sem ég vísaði til, að ríkið annist framkvæmdina en með þeim hætti þó að verkið sé boðið út og verktakafyrirtæki komi þar við sögu.

Eins og ég nefndi áðan og las upp ummæli hæstv. samgönguráðherra kemur þar fram að verktakar standi betur við tímasetningar og kostnaður sé áreiðanlegri o.s.frv. auk þess sem í þessu felist sparnaður. Hvaðan hefur hæstv. samgönguráðherra þessar upplýsingar? Í hvaða skýrslur er hann að vísa? Er hann að vísa í athuganir innlendra aðila, er hann að vísa í athuganir erlendra aðila og þá hverra? Ég get vísað á fjölmargar úttektir sem gerðar hafa verið á þessu í Bretlandi t.d. og ef út í þá sálma væri farið og farið að rifja upp einkaframkvæmdina t.d. á Ermarsundsgöngunum eða neðanjarðarlestakerfinu í Kaupmannahöfn eða fleiri framkvæmdum um Evrópu alla, þá hefur reyndin ekki verið sú sem hæstv. samgönguráðherra Íslands segir og staðhæfir. Síðan höfum við þessa úttekt Ríkisendurskoðunar að auki.

Spurning mín til hæstv. samgönguráðherra eða ósk öllu heldur er sú að hann vísi okkur á þau gögn og rannsóknir sem hann byggir þessar afdráttarlausu staðhæfingar sínar á. Ég hefði haldið, hæstv. forseti, að við þær aðstæður sem nú eru uppi þar sem erfitt er að afla lánsfjármagns sé tilkostnaðurinn við einkaframkvæmd enn meiri, enn óhagstæðari en ella. Síðan höfum við því miður orðið vitni að því að verktakafyrirtæki hafa orðið gjaldþrota, við þekkjum það t.d. af Reykjanesbrautinni, framkvæmdum þar, þannig að hvar sem borið er niður í þessum staðhæfingum hæstv. ráðherra og reynt að finna þeim einhverja stoð í veruleikanum lendir maður sannast sagna í nokkrum ógöngum. Það verður fróðlegt að hlýða á mál hæstv. samgönguráðherra því að ég trúi ekki öðru en að hann gefi okkur greinileg svör við þessum spurningum.