135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:50]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Nú þegar líður að miðnætti og umræðu um þennan viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 er að ljúka vil ég fyrst þakka þingmönnum fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur átt sér stað um samgöngumál í dag. Hún hefur verið bæði frjó og ágæt. Hér hafa menn lýst skoðunum sínum mjög vel og sitt sýnst hverjum eins og gengur og gerist.

Ég tek þó eftir því að í ræðum flestra þeirra þingmanna sem hér hafa komið lýsa þeir ánægju með þá áætlun sem hér er komin fram og það aukna fé sem er sett inn og þær flýtiframkvæmdir sem hér er verið að boða þó að menn diskúteri svo svolítið annað, eða skiptist á skoðunum réttara og betur sagt, um það hvernig ná skuli markmiðum þeim sem hér er talað um. Það er svo aftur hlutur sem verður vonandi alltaf, að menn verði ekki á eitt sáttir um þessi mál, hvernig þau eru unnin og hvernig skal vinna þau. Aðalatriðið er að við erum öll sammála um að gera sem mest, það þurfi að gefa í og það er það sem þessi ríkisstjórn er að gera.

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, hefur þetta verið mikil og góð umræða og ég kemst ekki yfir það í tíma mínum hér og nú að fara yfir öll þau atriði sem hafa komið fram. Ég hef að sjálfsögðu setið hana alla og skrifað hjá mér vegna þess að hér komu líka fram ýmis atriði sem vert er að hafa í huga þegar við förum í að endurskoða stuttu áætlunina og leggja fram löngu áætlunina næsta haust. Það eru hlutir sem þingmenn tjá hug sinn um nú og koma með sem er sjálfsagt að fara í gegnum og skoða hvort hægt er að verða við og setja inn.

Eins og ég segi, virðulegi forseti, er mér svolítill vandi á höndum um hvar ég ætti að taka og á hverju byrja. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, flestallir þingmenn hófu mál sitt á að lýsa yfir ánægju sinni með það sem gert er þó svo að margir hafi talað um að það þurfi svo að gera eitthvað annað og meira.

Margir hafa sett fram efasemdir um 2+2 vegi út frá höfuðborginni, eins og Suðurlandsveginn og Vesturlandsveginn. Ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að fara í 2+2 vegaframkvæmd á þessu svæði. Til dæmis hvað varðar Suðurlandsveg, ef menn eru að tala um 2+1 veg, er það bara þannig að miðað við umferðarspá förum við, ef ég man rétt, á 10 árum upp fyrir þær umferðartölur sem menn eru að tala um með 2+1 veg og verðum komin í 2+2. Eins og kom fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni sem talaði um þetta í dag eru líka margir sem tala um að síðan skulum við fara í að bæta við einni akrein og tvöfalda.

Þetta er ekki alveg svona auðvelt vegna þess að stundum, eins og á Suðurlandsvegi, er verið að byggja á þeim vegi sem er fyrir og menn ætla þá að byggja nýjan við hliðina. Það er ákveðinn kostur við að gera það þannig, en það væri ekki eins gott að gera ef við værum með 2+1 veg. Ég ítreka það sem ég sagði með Suðurlandsveginn, miðað við þá ofboðslegu aukningu umferðar sem við höfum séð undanfarin ár og þær spár sem eru fyrir er það alveg tvímælalaust rökstuðningur fyrir því að fara þessa leið, fara í 2+2 veg, og hið sama má segja um veginn frá Kjalarnesi upp að göngum þegar í það verður farið og tölum auðvitað ekki um framkvæmdirnar sem eru í gangi, þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautarinnar. Menn geta e.t.v. sagt að það taki allt of langan tíma. Við sjáum það auðvitað og höfum fyrir augum okkar að það eru komin mörg dæmi sem rökstyðja að sú ákvörðun var rétt að fara strax í 2+2 veg á Reykjanesbrautinni. Þetta vildi ég segja um það sem hér hefur verið talað um hvað það varðar allt saman.

Ég ætla að koma aðeins inn á ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar sem talaði hér fljótlega, talaði um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og það á mjög skynsamlegan hátt. Ég ætla að fara í gegnum þetta eins og hv. þingmaður gerði. Ég vil þá segja, bæði sem svar við fyrirspurn hans og svo eins við því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti réttilega á, þ.e. hvatti til þess að samráðshópur yrði settur í gang á vegum samgönguyfirvalda; Vegagerðar, samgönguráðuneytis og höfuðborgarsveitarfélaganna; að það er töluvert langt síðan ég skrifaði Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og óskaði eftir tilnefningum þeirra um þrjá menn til að setjast í samstarfsráðshóp. Sveitarfélögin eru búin að tilnefna í hann. Vegamálastjóri verður í honum og sjálfur ætla ég að sitja í þeim hóp og akkúrat vinna verkefni eins og báðir þessir hv. þingmenn hvöttu hér til. Ég hygg að það verði mjög fljótlega, á næstu dögum, sem þessi hópur kemur saman til fyrsta fundar og vinnur að því að búa til vinnuplan sem yrði farið í gegnum. Tilgangurinn er sá sem hv. þingmenn töluðu hér um áðan, að fara í gegnum og kíkja á forgangsröðunina, kíkja á hvort aðrar leiðir eru færar til að auka umferðarflæðið sem hv. þm. Jón Magnússon gerði töluvert mikið að sínu umræðuefni. Ég hef stundum sagt að það sé ólíkt því sem er á landsbyggðinni þar sem það er spurning hvort menn yfir höfuð komast milli svæða. Ég hef oft tekið dæmi af starfsmönnum í álverksmiðjunni á Reyðarfirði á Austurlandi sem hættu að vinna um tvöleytið á aðfangadag en komust ekki heim til sín á Norðfjörð fyrr en um miðnætti vegna þess að Oddsskarðsgöngin voru lokuð.

Nýlegt dæmi er líka af Fjarðarheiðinni þegar sjúklingur var fluttur frá Seyðisfirði upp á Hérað. Það tók að mér skilst átta tíma vegna þess að allt var ófært. Þetta er það sem við eigum við að glíma í samgöngumálum. Til að ítreka það enn einu sinni, á höfuðborgarsvæðinu snýst það um umferðarflæðið, hversu vel það gengur fyrir sig vegna þess að það er þjóðhagslega mjög óhagkvæmt að sá mikli fjöldi sem hér fer um sé í mikilli umferðarteppu og komist þess vegna ekki ferða sinna. Það hefur líka komið fram, eins og hjá hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni, að vafalaust munum við aldrei geta uppfyllt það að menn komist jafnhratt í morgunumferð og síðdegisumferð, það hefur sennilega hvergi tekist í heiminum.

Hv. þm. Jón Magnússon gat líka áðan um mislægu gatnamótin og stokkalausnir sem talað er um á Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Ég punktaði það hér hjá mér og hv. þingmaður var sammála mér um það þegar við töluðum aðeins um það eftir ræðu hans að auðvitað hafa þessi áform og þær áherslur sem eru þarna breyst eftir því hvernig meiri hluti hefur skipast í borginni. Það er hlutur sem við höfum farið vel yfir.

Hv. þm. Jón Bjarnason fagnar þessari aukningu eins og aðrir en spyr um bæði flugvöllinn á Patreksfirði og Bíldudal. Vegna þess að hv. þingmaður er farinn heim urðum við ásáttir um að ég mundi svara spurningum hans þegar ég tek fyrirspurnir hans fyrir. Hv. þingmaður er með fyrirliggjandi fyrirspurnir hér í þinginu um — (ÖJ: Hv. þingmaður er ekki farinn heim. Hann fylgist með umræðunum.) Allt í lagi, en við urðum samt ásáttir um að við mundum frekar fjalla um þær fyrirspurnir sem hann á um verkið sem slíkar en ekki hér og nú.

Þá kem ég að hv. þm. Álfheiði Ingadóttur sem líka fagnaði því að bætt væri í. Hún fór yfir í umræður um flugvöllinn og almenningssamgöngur sem eru auðvitað stórmál og ber að gefa meiri gaum. Við skulum hafa það í huga eins og alltaf að almenningssamgöngur eru eingöngu verkefni. Hvað varðar strætisvagna og rútubíla; strætisvagnar eru verkefni sveitarfélaganna, ríkisvaldið kemur hins vegar að útboði í sérleyfisbílunum milli staða á landinu. Þetta er það kerfi sem hér hefur verið og hefur verið unnið eftir.

Ég er hins vegar ekki alveg sammála hv. þingmanni þegar hún ræðir um skiptinguna á vegafé til höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Eins og hún ræddi um það hefur núna hallað á höfuðborgarsvæðið vegna flýtiframkvæmdanna sem hér hefur verið rætt um sem koma inn vegna þorskniðurskurðar. Hvort tekjurnar eru 50 á móti 50 skal ég ekki segja um en þetta er, held ég, ekki svona eins og þarna er sett fram. Við getum tekið sem dæmi skiptingu á símapeningunum margfrægu, 15 milljörðunum, þar eru um 10,6 milljarðar til höfuðborgarsvæðisins og 4,4 til landsbyggðar. Eitt sem við verðum líka að hafa þar í huga, virðulegi forseti, er lengd vega hér á höfuðborgarsvæðinu sem tilheyra ríkinu og svo aftur lengd vega úti um öll kjördæmi landsins, önnur kjördæmi sem tilheyra ríkinu. Þó að ég sé ekki alveg með þær tölur á hreinu munar þar mjög miklu.

Virðulegi forseti. Því miður kemst ég ekki lengra, a.m.k. ekki í þessari ræðu minni, við að bregðast við þeim spurningum sem hér hafa komið fram en ég ítreka það sem ég sagði áðan, umræðan hefur verið góð og þó að ekki sé hægt að svara öllum spurningum sem koma fram lít ég á margt af þessu líka sem ábendingar frá þingmönnum (Forseti hringir.) fyrir það verk sem við þurfum að vinna og samgöngunefnd á að vinna.