135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:01]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég sammála hæstv. ráðherra um að það á að leggja umferðarspár og aðrar faglegar viðmiðanir til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar um samgönguframkvæmdir og þar á að sjálfsögðu ekki að tjalda til einnar nætur. Ef spár gera ráð fyrir því að það þurfi 2+2 veg eftir tíu ár þá er það sjónarmið að fara í slíka framkvæmd. En það er líka staðreynd að við erum ekki með ótakmarkaða fjármuni og mjög mikilvægt er að nýta þá á sem árangursríkastan hátt, m.a. til að draga úr slysum og komast yfir lengri leiðir. Auðvitað er best að fá 2+2 og kaflar t.d. á leiðinni austur fyrir fjall eins og búturinn milli Hveragerðis og Selfoss kallar tvímælalaust nú þegar á 2+2 veg með mislægum gatnamótum á þeim hættulega kafla sem þar er. Svo er líka spurning hvort lausn eins og t.d. var valin á leiðinni upp í Mosfellsbæ, tveggja akreina vegur í báðar áttir en gatnamót í hringtorgum í staðinn fyrir mislæg, getur ekki vel dugað. Ég verð ekki var við annað en að sú framkvæmd sé ágætlega heppnuð og er þar þó ærinn umferðarþungi.

Ég fagna því að samráðshópur sé kominn á laggirnar um stefnumótun og að leggja faglegar viðmiðanir á leiðir út frá höfuðborgarsvæðinu og sama á auðvitað við víðar. Til dæmis þarf að fara að huga að því hvernig umferð verður fyrir komið út frá Akureyri og í næsta nágrenni Akureyrar þarf að fara að móta stefnu um það til framtíðar að hvaða marki þarf þar 2+2 eða 2+1 á umferðarþyngstu köflunum eins og norður frá Akureyri og norður yfir Moldhaugnaháls og að Ólafsfjarðarvegamótum o.s.frv.

Ég hefði svo gjarnan viljað vita ef hæstv. ráðherra hefði haft tíma til að svara spurningu minni um Vaðlaheiðargöngin alveg sérstaklega hvort nokkur vafi leiki á því að áformin þar ganga út á það að framkvæmdin verði eign ríkisins að samningstíma loknum og renni þá saman við hið almenna vegakerfi.