135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. samgönguráðherra hafi ekki getað svarað öllum þeim spurningum sem til hans var beint og þar á meðal minni sem var sett fram undir lok umræðunnar en það gefst tækifæri til þess núna.

Hæstv. samgönguráðherra hefur verið með mjög afdráttarlausar yfirlýsingar á Alþingi um kosti einkaframkvæmdar í þá veru að slík framkvæmd standist betur tímaáætlanir, hafi síður tilhneigingu til að fara úr böndum en auk þess hefur hæstv. ráðherra vísað í meiri sveigjanleika, viðbragðsflýti og hæfni. Þetta kom fram í ræðu sem hæstv. samgönguráðherra flutti 2. október sl. eftir stefnuræðu forsætisráðherra.

Spurning mín er þessi: Hvaðan hefur hæstv. samgönguráðherra upplýsingar sínar? Á hverju byggir hann þessar afdráttarlausu yfirlýsingar?