135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. samgönguráðherra leggur mér orð í munn um Hvalfjarðargöngin. Ég hef lagt áherslu á að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og aðrir þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum algerlega á einu máli hvað varðar einkaframkvæmd. Hún er þegar á heildina er litið eftir þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur — og við höfum farið talsvert vel í saumana á þessum málum — dýrari og óhagkvæmari kostur en sá að láta ríkið framkvæma beint. Þetta segir reynslan, við höfum skýrslur og ég vísa enn og aftur í úttekt Ríkisendurskoðunar. Þetta eru staðreyndir sem virðast liggja á borðinu.

Síðan er það hitt, það eru hinar pólitísku hliðar um forgangsröðun og hvort af framkvæmdum yrði. Ég leyfi mér að vara almennt við þessari einkaframkvæmdarstefnu. Við höfum dæmin frá Bretlandi. Það er mjög auðvelt að vísa reikningum yfir á framtíðina, það er mjög auðvelt. Á þeirri forsendu hafa skólar verið byggðir og sjúkrahús reist, allt í einkaframkvæmd, miklu dýrara, tímaáætlanir hafa iðulega ekki staðist. Það á við um samgöngumálin líka.

Þetta vildi ég ræða í ljósi mjög afdráttarlausra yfirlýsinga frá hæstv. samgönguráðherra um kosti einkaframkvæmdar. Þegar farið er að grennslast nánar fyrir um á hverju hæstv. ráðherra byggir þá er það ekki neitt, þá er þetta bara eitthvert tal út í loftið. Ég hef af því miklar áhyggjur ef ríkisstjórnin og hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) er farinn að framkvæma á grundvelli svo óljósra hugmynda.