135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:44]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skemmtileg umræða. Hér kom fram að stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi hvað varðar Vaðlaheiðargöng var að vinna það verk í einkaframkvæmd. Það hefur komið fram og kom fram á kosningafundum og það hefur verið staðfest hér, í einkaframkvæmd með veggjaldi.

Hér kom líka fram, farið aftur til 1991, frá hv. þingmanni sem þá var samgönguráðherra, að áhættan sem var talin fylgja þessu mundi hafa áhrif á fjármögnun og kannski yrði ekkert úr verkinu vegna áhættu. Þá kemur það líka þarna inn og er staðfesting á því sem ég sagði áðan: Er það ekki ein af ástæðunum fyrir því að við fengum óhagstæð lán í byrjun og vorum kannski að borga hærri fjármagnskostnað þá, sem seinna lækkaði við endurfjármögnun, að það var dýrara vegna þessarar áhættu og þetta var fyrsta verkið?

Hér er því komin, virðulegi forseti, staðfesting á því og þá er búið að hrekja ýmislegt af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var að tala um áðan hvað varðar Hvalfjarðargöng þar sem vitnað er í það að sú ágæta einkaframkvæmd hefði verið dýrari þegar upp var staðið. Hér hefur það komið fram, það var m.a. út af áhættuþættinum.