135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:45]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þessi umræða af hálfu hæstv. ráðherra muni dæma sig sjálf og að þeir sem koma til með að lesa þetta, ef einhverjir nenna því síðar meir, verði fullfærir um að dæma það hvernig hæstv. ráðherra reynir hér að snúa upp á hlutina.

Það er að sjálfsögðu ekki stefna mín eða Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að Vaðlaheiðargöng séu unnin í einkaframkvæmd. Það er ekki stefna okkar. Ég hef margsagt — og á þessum fundum sem hæstv. ráðherra er að vitna hér í þá held ég að hafi nokkurn veginn örugglega alltaf tekið það fram af því það er mín skoðun (Gripið fram í: Peningarnir ...) — að einfaldast og ódýrast væri að ríkið ynni þessa framkvæmd ef það væri í boði, ef það væri hægt að ná fram pólitískri samstöðu um að gera það þannig. (Samgrh.: En það var ekki í boði.) Það var ekki í boði á sínum tíma og er ákaflega ólíklegt að það verði í boði allra næstu árin hvað varðar Vaðlaheiðargöng. (Samgrh.: ... einkaframkvæmd.) Það er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir í málinu. (Samgrh.: Og þess vegna ...) Áhugamenn í héraði hafa unnið að málinu á þessum forsendum. (Samgrh.: Og þess vegna ...) Veit hæstv. ráðherra þetta ekki? Hvað er hæstv. ráðherra að reyna að sanna með þessum frammíköllum? Heldur hann að hann bæti málflutning sinn með þessu? Hefur hæstv. ráðherra ekki burði til að ræða þessi mál á grunni staðreynda sem má kalla svo þó það sé auðvitað alltaf kannski hæpið að nota orðið staðreyndir um pólitískan veruleika. En hann er eins og hann er. Samgönguráðherrar bæði núverandi og fyrrverandi hafa ekki verið með þessa framkvæmd inni í vegaáætlun. Það hefur ekki verið um það pólitísk samstaða. Halda menn að menn mundu taka því fagnandi fyrir vestan og austan ef jarðgöngin sem eru næst í röðinni ættu að frestast vegna þess að það ætti að ráðast í þessa framkvæmd sem auðvitað standa önnur rök fyrir en kannski þegar tekinn er út þröskuldur af því tagi sem ný Oddsskarðsgöng eiga að gera eða göng til Bolungarvíkur eða undir Hrafnseyrarheiði?

Hæstv. ráðherra vinnur hvorki málaflokknum né sjálfum sér gagn með því að reyna að fara með umræðuna niður á þetta plan. Þó ég sé nú ekki sérlega trúaður maður þá segi ég nú bara: Í guðs bænum, hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) hættu þessu nú.