135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:48]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég ætla nú svo sem ekki að lengja þessa umræðu um vegamálin og þá sérstaklega Vaðlaheiðargöngin sem mætti nú fara að kalla Vaðalheiðargöngin miðað við þann vaðal sem hefur verið á samgönguráðherra í þeim málum hérna í kvöld. Það er þó þörf á að rifja hérna upp sumt af því sem núverandi samgönguráðherra sagði fyrir síðustu kosningar og á í erfiðleikum með að kannast við hér í kvöld, heyrist mér.

Hann fór mikinn, eins og sagt hefur verið og hann hlýtur að muna eftir því sjálfur. Alla vega hafði hann af því gaman að dreifa bæði barmmerkjum og blöðum og bæklingum og standa í myndatökum frammi fyrir stórum plakötum norður á Akureyri þar sem bærinn var skreyttur með þeim slagorðum að hér yrði borað í gegnum Vaðlaheiði, að hér yrðu gerð gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax og það væri hreinn ræfilskapur eða aumingjaskapur — ég man ekki hvað hann kallaði það í grein sem ég held að hafi verið á bloggsíðu hans frekar en á bloggsíðu Samfylkingarinnar — að fara ekki í þetta í hvelli, bara strax eftir kosningar, fyrir fyrstu snjóa haustið 2007. Það var nú ekkert flóknara en það. Þetta var ekkert flókin framkvæmd eða óyfirstíganlegt að nokkru leyti að ráðast í hana strax.

Á heimasíðu Samfylkingarinnar má finna ágæta grein eftir núverandi hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller þar sem hann fer yfir þessi mál um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng í framkvæmd. Þar segir hann meðal annars, með leyfi forseta:

„Samfylkingin boðaði í janúar síðastliðnum“ — þetta er skrifað 20. apríl 2007 — „stórátak í samgöngumálum sem mótvægi við ætlan ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu stóriðju á höfuðborgarsvæðinu ...“

Og ein af þeim leiðum voru gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax. Og áfram segir núverandi hæstv. samgönguráðherra um það mál, með leyfi forseta:

„Hlutafélagið Greið leið ehf. hefur unnið alla undirbúningsvinnu Vaðlaheiðarganga mjög faglega og á sinn reikning. Ætlan félagsins hefur verið að gera göngin sjálf með 750–1.000 milljón kr. framlagi ríkisins, auk ríkisábyrgðar ...“

Síðan reifar hann það mál frekar en skrifar síðan undir kafla sem hann skýrir „Veggjald ekki innheimt.“ Það er fyrirsögnin á næsta kafla í þessari fínu grein eftir hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller. Með leyfi forseta, segir hann:

„Í ljósi seinagangs stjórnvalda í þessu brýna máli hef ég sett fram þá skoðun mína að við eigum að flýta gerð Vaðlaheiðarganga sem mest og hefja framkvæmdir ekki seinna en um næstu áramót ...“

Ég ítreka að þetta var skrifað 20. apríl 2007. Þau áramót eru liðin. (Gripið fram í: Hvenær ... áramót?) Þau áramót voru áreiðanlega í lok janúar venju samkvæmt. (MS: Nei, þau voru í lok desember.) Jú, í lok desember, segi ég, venju samkvæmt. Sá tími er liðinn.

Áfram skrifar hæstv. samgönguráðherra, með leyfi forseta:

„Þetta er hægt og svigrúm er fyrir þessa framkvæmd í hagkerfinu þar sem ekki verður af stórstækkun álversins í Straumsvík.

Vaðlaheiðargöng eiga að okkar mati að vera annaðhvort hefðbundin ríkisframkvæmd með fjárveitingu eða lántöku ríkissjóðs eða einkaframkvæmd ... Mér er kunnugt um mikinn áhuga nokkurra verktaka á [þessari framkvæmd].“

Þegar hæstv. samgönguráðherra er búinn að reifa fjármögnun ganganna og hvernig hann vilji láta framkvæma hana þá segir hann í grein sinni á heimasíðu Samfylkingarinnar, með leyfi forseta:

„Ég er með þessu að segja að veggjald verði ekki innheimt af notendum Vaðlaheiðarganga ...“

Svo einfalt var það nú, skýrt og skorinort. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum er hægt að misskilja það sem þar kemur fram og þetta er enn öllum aðgengilegt á heimasíðu Samfylkingarinnar, undirritað af Kristjáni L. Möller sem þá skipaði fyrsta sæti lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi eins og stendur undir greininni. Kristján L. Möller heldur áfram í sömu grein, með leyfi forseta:

„Verði framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng flýtt og framkvæmdir hafnar, eins og hér að framan er rakið, verður hægt að opna þau um áramótin 2009–2010 ...“

Það er nú ekki langt í það þannig lagað. En ég er ekki viss um að það verði keyrt þar í gegn gjaldfrítt um áramótin 2009–2010. Ég er ekki tilbúinn að veðja miklum pening á það. Og hæstv. samgönguráðherra endar þessa ágætu grein sína á því að segja, með leyfi forseta:

„Sýnum [nú] meiri kraft en núverandi stjórnvöld [hafa gert] og ráðumst í gerð [gjaldfrírra] Vaðlaheiðarganga strax.“

Undir þetta skrifar Kristján L. Möller sem skipar fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Þann 20. apríl er þetta birt á heimasíðu Samfylkingarinnar og þar stendur það enn. Reyndar er sjálfur hæstv. samgönguráðherra búinn að loka aðgangi að sinni eigin síðu sem innihélt nú reyndar margar skemmtilegar greinar sama efnis. En það leið ekki langur tími frá því að ríkisstjórn var mynduð að viðtal við samgönguráðherra kom í svæðisútvarpinu á Akureyri undir fyrirsögninni og inngangi fréttamanns: „Samgönguráðherra lofar ekki að flýta göngunum.“ Bíddu nú við. Samgönguráðherra lofar ekki að flýta göngunum. Hann var ekki að tala um að fresta þeim. Hann var ekki að tala um að endurskoða málið. Hann lofaði ekki að flýta þeim. Í fréttum svæðisútvarpsins á Akureyri sagði, með leyfi forseta:

„Nýr samgönguráðherra vill ekki lofa því að framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng verði flýtt. En hann leggur áherslu á að allir þingmenn kjördæmisins vinni að málinu í sátt og samlyndi.“

Þannig háði hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller og Samfylkingin kosningabaráttu sína í Norðausturkjördæmi á sínum tíma og höfðu gaman af og lögðu mikið í, lögðu reyndar allt undir, máluðu bæinn rauðan með stórum plakötunum sínum og stóru borðunum um gjaldfrí Vaðlaheiðargöng strax. En síðan kom hann af sínum fyrsta fréttamannafundi fyrir norðan og sagði. „Ég lofa því ekki að flýta framkvæmdunum.“

Menn verða bara einfaldlega að kannast við það sem þeir sögðu. Það er ekki svo langt síðan ... (Gripið fram í.) Það er ekki svo langt síðan að þessi orð voru sögð. Menn verða einfaldlega að kannast við þau orð og það veit ég auðvitað að sveitungi minn, hæstv. samgönguráðherra Kristján L. Möller gerir og verður ekkert minni maður þó hann viðurkenni að hann hafi ekki getað — ég vil ekki segja svikið — hann hefur hreinlega ekki getað staðið við þau loforð sem hann gaf kjósendum í Norðausturkjördæmi eins og nú er að koma í ljós.