135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[01:00]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hélt að ekki þyrfti eitt augnablik að áminna menn um að menn könnuðust við það sem þeir hefðu sett fram í ræðu og riti. Það þarf ekki að koma til þess, hvorki að brýna til þess né efast um það, það er ekki. Ég veit ekki hvernig það er á þeim bæ sem hv. þingmaður starfar á, hvort það er þannig á þeim bæ sem hann var áður á, ég veit það ekki en ég vil ekki trúa því.

Ég kannast vel við allt sem ég hef sett fram sem stefnumál og barist fyrir. Ég ítreka það og segi: Ég er ákaflega stoltur af þessum verkum og að hafa komið þessu til leiðar ásamt mörgum öðrum góðum verkum sem við ræðum í þessum viðauka við samgönguáætlun. Svo gott sem allir þingmenn Vinstri grænna sem tóku til máls fögnuðu þeim góðu verkum sérstaklega í upphafi málsins þó að þeir hefðu athugasemdir við ýmislegt annað sem stóð þar. (Gripið fram í.) Það fögnuðu því eiginlega allir. Það er gott dæmi um þann samhljóm sem er um að fara í stórátak í samgöngumálum þó að menn greini á um í hvaða verk á að fara og hvernig. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður gat þess ekki, einhverra hluta vegna, að ég sagði m.a. í kosningabaráttunni að það sem lægi á bak við þetta væri einfaldlega það atriði að jafnræði ætti að ríkja milli verka. Sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi telja, og í ályktunum frá Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi hefur það komið fram, að Vaðlaheiðargöng eigi að vera gjaldfrjáls — og vona ég nú að hv. þingmaður taki eftir þó að foringinn hans, háttvirtur, sé að láta hann hafa punktana. Menn hafa talað um það að ef Vaðlaheiðargöng væru gjaldfrjáls ætti að fella gjaldið skilyrðislaust niður í Hvalfirðinum. Það hefði kostað 6,5 milljarða.

Má ég líka, virðulegi forseti, nefna það að Eyþing hefur áfram ályktað um það (Forseti hringir.) að hóflegt veggjald væri fínt gagnvart Vaðlaheiðargöngum, aðalatriði væri að koma verkinu sem fyrst í gang. (Forseti hringir.) Það liggur á bak við þetta hjá mér, það var ekki erfitt að taka þátt í því. En ég spyr, (Forseti hringir.) af því að mér finnst vera frekar neikvæður tónn í hv. þingmanni gagnvart framkvæmdinni: Er ekki hv. þingmaður mjög ánægður með (Forseti hringir.) að þetta skuli vera komið þetta langt?