135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

umferðarlög.

579. mál
[01:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Síðastliðið haust spurði ég hæstv. samgönguráðherra m.a. um skoðun á bílum og fjölda óskoðaðra bíla í landinu, einnig hvernig eftirliti og innköllun bíla væri háttað sem ekki væru færðir til skoðunar. Ég spurði einnig hæstv. ráðherra hversu margir óskoðaðir bílar hefðu tengst banaslysum undangengin fimm ár.

Svör hæstv. ráðherra í desember sl. báru það með sér að þá hafi 22 þúsund óskoðuð ökutæki verið á götunum og yfir 3 þúsund ökutæki sem ekki voru tryggð. Það kom líka fram í svörunum að enginn var í rauninni boðaður í skoðun með sinn bíl þó svo að skýrar reglur séu um það, eins og hæstv. ráðherra rakti áðan, hvernig og hvenær færa eigi bifreiðar til skoðunar og þær séu merktar samkvæmt því á númeraplötu. Það kom einnig fram að eftirliti með því að bílar væru færðir til skoðunar var mjög ábótavant. Skýringin var sú að lögreglan hefði öðrum hnöppum að hneppa og mikilvægari en að elta uppi óskoðaða bíla í umferðinni. Það kom líka fram að gjald sem sett var á með lagabreytingu á árinu 2004 hefði aldrei verið innheimt en með þeim lögum voru sektir felldar niður. Það kom einnig fram að dregið hefði úr klippingum, að klippa númeraplötur af, sem er þó talið ansi virkt úrræði.

Einnig kom fram að það er enginn fjárhagslegur hvati í kerfinu til þess að menn komi með bíla í skoðun. Þvert á móti geta menn sparað sér 3.000 kr. skoðunargjald með því að mæta ekki þetta árið með bílinn í skoðun vegna þess að það kemur ekki í bakið á þeim næst þegar þeir koma, af því að það er sama skoðunargjald þó svo að mörg ár líði. Og, herra forseti, það sem alvarlegast var að mínu viti að á þessum tíma tengdust 10 óskoðuð ökutæki banaslysum á þeim fimm árum sem spurt var um, á árunum 2003–2007. Það er auðvitað grafalvarlegt.

Aðdragandi þessara fyrirspurna minna, sem voru tvær á þingskjölum 124 og 125, var í raun tilkynning frá lögreglunni í Árnessýslu í desember 2006 vegna þriggja banaslysa sem höfðu orðið í umdæmi hennar síðustu tvö árin þar á undan. Í þeim slysum áttu í hlut bifreiðar sem hefðu ekki átt að vera á götunni að mati lögreglu, voru ekki í viðunandi ástandi en höfðu þó fengið skoðun á viðurkenndri skoðunarstöð.

Ég ætla ekki að rekja þá sorg og þá angist sem það veldur að missa ástvin í umferðarslysi en það er ekki forsvaranlegt að það skuli ekki vera betra eftirlit með óskoðuðum bílum í umferðinni. Almenna reglan er að menn skuli koma með bíla til skoðunar einu sinni á ári eftir að þeir eru orðnir fimm ára gamlir. Fyrst á að koma með nýja bíla eftir þrjú ár, síðan fimm ár og svo á hverju ári. Nú boðar hæstv. ráðherra að breyta eigi reglum um skoðunarskyldu og það er ein af ástæðunum fyrir því sem ég gagnrýni mjög harðlega það frumvarp sem hér liggur fyrir að gildistaka þess á ekki að vera fyrr en um næstu áramót. Það skiptir nefnilega ekki máli hversu oft á að skoða bifreiðar sem ekki eru færðar til skoðunar, aðalatriðið er að þær séu skoðaðar, ekki hvort það er á tveggja ára fresti eða á eins árs fresti. Taka þarf úr umferð þær bifreiðar sem ekki eru skoðaðar, það er aðalatriðið, ekki að breyta skoðunarreglum til samræmis við Norðurlöndin. Það er ekki það sem stendur okkur fyrir þrifum, hæstv. ráðherra, að reglurnar séu þær að færa eigi bifreiðar til skoðunar á hverju ári en ekki annað hvert ár eftir tiltekinn tíma eins og á Norðurlöndunum. Skoðun bíla hefur aðeins einn tilgang og það er að tryggja umferðaröryggi en til þess að svo sé verður skoðunin auðvitað að vera reglubundin, hún verður að vera án undantekninga og hún verður að vera framkvæmd með sama hætti alls staðar.

Ég nefndi áðan að umferðarlögum var breytt á árinu 2004 þannig að í stað sekta kom gjald sem átti að leggja á ef bifreiðar væru ekki færðar til skoðunar. Það var aldrei innheimt og hefur aldrei verið innheimt. En gerð var önnur breyting á lögum og það var á árinu 1997 þegar Bifreiðaskoðun Íslands var einkavædd. Maður hlýtur að spyrja sig að liðnum 10 árum eftir að sú lagabreyting gekk í gegn hvort það var rétt skref að taka upp samkeppni í öryggiseftirliti sem þessu. Ég held að á þessum tíma hafi ástandið í þessum málum alla vega ekki batnað hér á landi.

Það kemur fram í þeirri tilkynningu sem ég nefndi frá lögreglunni í Árnessýslu frá því í desember 2006 að þar áttu í hlut bifreiðar sem hefðu ekki átt að vera á götunni að mati lögreglu, voru ekki í viðunandi ástandi en höfðu þó fengið skoðun á viðurkenndri skoðunarstöð. Í einu tilfellinu var um að ræða yfir 20 ára gamlan jeppa sem var að hrynja í sundur, enda losnaði yfirbyggingin hreinlega af undirvagninum við áreksturinn sem þar var um að ræða og skoðunarsaga þessa bíls var með endemum. Ég efast um það, hæstv. ráðherra, að rétt hafi verið að fara í samkeppni í öryggiseftirliti sem þessu og ég tel að taka eigi þessa einkavæðingu til endurskoðunar.

Þetta frumvarp er mér að vissu leyti mikil vonbrigði. Við hæstv. samgönguráðherra vorum sammála um það í vetur að mjög brýnt væri að taka til hendinni á þessu sviði. Ég spurði sérstaklega hvort hann væri mér sammála um að gera þyrfti stórátak í þessu efni en því var reyndar ekki svarað heldur að það þyrfti jú að endurskoða umferðarlögin til að kippa þessu í liðinn.

Hvað kemur svo? Það er heimildarákvæði um gjald frá 15 þús. kr. upp í 30 þús. kr. Það á að greiða þetta gjald við skoðunina. Ég geri ekki ágreining um þessar fjárhæðir, mér finnst þetta ekki háar fjárhæðir, sérstaklega ekki miðað við förgunargjaldið sem menn fá þegar þeir koma með bíl til förgunar sem er 15 þús. kr., því hefur reyndar ekki verið breytt frá árinu 2005. En ég hlýt að spyrja hvort gerður hafi verið samningur eða leitað álits hjá skoðunarstöðvunum, hvort þær séu tilbúnar til að innheimta þetta gjald og hvað undirbúningur að þessu mundi kosta.

Það kemur líka fram að setja eigi reglugerð um þetta og eins það að veita afslátt frá gjaldinu sem ég tel orka tvímælis. Annaðhvort á að hvetja menn til að koma með bílana til skoðunar innan tiltekins tíma og gegn einhverjum viðurlögum eða ekki, en ekki að veita einhvern aukafrest á það, ég sé engan tilgang með því. Eins og ég sagði áðan tel ég heldur ekki eðlilegt að bíða eftir því að ný reglugerð komi með breyttu fyrirkomulagi skoðunar hvað varðar tímalengdina.

Þarna er einnig lagt til að ráðherra verði heimilt að fela öðru stjórnvaldi innheimtu gjalds sem er komið í vanskil og eins og hér hefur verið rakið af hæstv. ráðherra er þar væntanlega um að ræða sýslumanninn í Bolungarvík sem sá þessa, við skulum hreinlega kalla það viðskiptahugmynd til þess að efla starfsemi embættis síns og ég held að það hafi verið mjög vel til fundið. Vestfjarðanefndin tók það síðan upp og ég held að það sé bara mjög gott mál.

Það sem ég vil fyrst og fremst gagnrýna er gildistökuákvæðið, að lögin eigi ekki að öðlast gildi fyrr en í janúar 2009. Það kemur fram að þarna er um u.þ.b. 25 þúsund ökutæki að ræða, 10% af öllum ökutækjum sem eru á götunum hér. Talið er að tæp 5 þúsund þessara ökutækja hafi ekki komið til skoðunar í meira en 25 mánuði og verið er að tala um að bæta sjö mánuðum við það. Talið er að 3.800 af þessum ökutækjum hafi ekki verið færð til skoðunar síðastliðna 13–24 mánuði og þá er verið að tala um umfram skoðunarskyldu, og þarna munu vera nær 10 þúsund ökutæki sem ekki hafa verið færð til skoðunar þó að liðnir séu 7–12 mánuðir fram yfir skoðunarfrest.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju á ekki að láta þessi viðurlög og þessi lög taka gildi t.d. tveimur mánuðum eftir að þau eru samþykkt, 1. júlí skulum við segja, en þá yrði heimilt að beita þessum sektum og innheimta þetta gjald? Þá mundi kannski takast að taka eitthvað af þessum hryllilega hættulegu bílum úr umferð í júlí og ágúst þegar umferðin er hvað mest og þegar slysin verða sem flest. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að hæstv. samgönguráðherra sé mér ekki sammála um að það sé hægt. Ég hvet hæstv. ráðherra og skora hreinlega á hann að stíga nú skrefið til fulls, að taka a.m.k. skref í þessum efnum sem munar um, því að það þarf að taka þessa bíla úr umferð og það er engin ástæða til að bíða með slíkar aðgerðir fram yfir næstu áramót. Það þarf ekki að bíða eftir endurskoðun á reglugerð hvað varðar skoðunartímann, það er ekki spurning hvenær þeir eiga að koma heldur hvort þeir koma til skoðunar. Það á að grípa á lofti tilboð sýslumannsins í Bolungarvík og setja hann strax í vinnu, láta hann fara að kalla inn til skoðunar bíla sem ekki hafa komið til skoðunar, þessa 25 þúsund bíla. Þetta er enginn vandi, við erum með rafræna bifreiðaskrá. Bankarnir gera þetta á hverjum einasta degi, þegar menn eru komnir yfir eitthvert tiltekið mark þá eru aldeilis sendar út sjálfkrafa áminningar, og mönnum ætti ekki að veitast það erfiðara í þessu.

Ég hlýt að nefna líka eitt atriði og það er hlutur lögreglunnar í þessu. Það þekkja allir ökumenn hvaða hvati það hefur greinilega verið í innheimtu á hraðaksturssektum þegar lögreglan í Húnavatnssýslum tekur sig til og leitar uppi þá sem aka of hratt. Það gæti kannski hugsast að rétt væri að koma einhvers konar hvata inn í þetta kerfi þannig að lögreglan teldi sér ekki bara skylt heldur væri henni ljúft að leita uppi bíla sem eru óskoðaðir og taka þá úr umferð.

Ég tel líka að að nota mætti tekjuaukann sem af þessu skapast, og tekinn er fram í athugasemdum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, til að setja einhvern hvata til lögreglunnar í þessu efni þannig að þeir gætu sinnt þessum málum betur. Einnig mætti hreinlega hækka greiðslu fyrir það að koma með bíla til afskráningar, (Forseti hringir.) í stað þess að menn fengju 15 þús. kr. að hækka þá upphæð og reyna að fá eitthvað af þeim bílum sem hafa verið óskoðaðir í allt að 25 mánuði (Forseti hringir.) umfram þann tíma sem þeir áttu að vera skoðaðir á. Ég skora á ráðherrann að taka skrefið til fulls í þessu.