135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

breytingar á starfsemi Landspítalans.

[15:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur verið starfandi sérstök tilsjónarnefnd með stjórnendum Landspítala – háskólasjúkrahúss en sú nefnd hefur jafnframt haft það verkefni á sinni könnu að koma fram með tillögur um breytingar á rekstri og hugsanlega rekstrarformum á sjúkrahúsinu. Í fjölmiðlum í gær var nokkuð fjallað um starf þessarar nefndar, þar á meðal á vefmiðlum Ríkisútvarpsins og Morgunblaðsins. Þar kom fram að nokkurs óróa gætti nú meðal starfsmanna Landspítalans vegna óvissu um framtíð sjúkrahússins en þessi nefnd sem er undir forsæti Vilhjálms Egilssonar, núverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á að skila af sér í júnímánuði.

Á mbl.is segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Vilhjálmur Egilsson segir að skoðað verði hvort gera eigi Landspítalann að opinberu hlutafélagi en að nefndin hafi ekki tekið ákvörðun um neitt enn.“ Síðar í fréttinni er haft eftir Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra samtaka atvinnurekenda, að verði Landspítalinn gerður að opinberu hlutafélagi muni það auka sveigjanleika í rekstri sjúkrahússins.

Nú spyr ég: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Kemur það virkilega til greina, samkvæmt stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að Landspítalinn – háskólasjúkrahús verði gerður að hlutafélagi eins og Vilhjálmur Egilsson boðar í fréttum í gær?