135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

breytingar á starfsemi Landspítalans.

[15:16]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmanni svellur hér móður eins og fyrri daginn Hann hefur stundum talað um okkar ágæta fyrrverandi kollega, Vilhjálm Egilsson, þannig að hann hlypi um gangana á Landspítalanum með niðurskurðarsveðjuna á lofti. Það sagði hann hér fyrir jólin þegar fjárlagaumræðan stóð sem hæst. Svona er málflutningurinn.

Það virðist sem hann vilji svipta þennan ágæta mann sem hefur gegnum árin verið afar tillögugóður á ýmsum sviðum, eins og við þekkjum hér öll, málfrelsinu, hann megi ekki segja frá því hvaða hugmyndir hann (Gripið fram í: … álit ríkisstjórnarinnar …) er með í nefndarstarfinu. Ég yrði ekkert hissa á því þótt fram kæmu ein eða fleiri hugmyndir, einhverjir valkostir til að skoða. Til þess er svona vinna sett í gang, hv. þingmaður. En við göngum að sjálfsögðu fordómalaust til þessara verka ólíkt hv. þm. Ögmundi Jónassyni. (ÖJ: … fordómunum.)