135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

upplýsingar um launakjör hjá RÚV.

[15:22]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Fjölmiðill hér í bæ, visir.is, hefur mátt standa í ströngu gagnvart útvarpsstjóra í því skyni að knýja fram upplýsingar um launakjör tiltekinna starfsmanna hins opinbera hlutafélags, Ríkisútvarpsins ohf., sem eins og alþjóð er kunnugt var fyrir harðfylgi stjórnarandstöðunnar hér á síðasta kjörtímabili sett undir upplýsingalög, nr. 50/1996, sem ekki hafði verið meining þáverandi stjórnarflokka, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Nú hefur útvarpsstjóri neitað þessum fyrrnefnda fjölmiðli, visir.is, um umbeðnar upplýsingar sem samkvæmt almennum skilningi upplýsingalaga ættu að vera til reiðu.

Nú spyr ég, hæstv. forseti, hæstv. menntamálaráðherra: Er það með samþykki ráðherrans að Ríkisútvarpið ohf. neitar að gefa fjölmiðli upplýsingar um launakjör tiltekinna starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf.? Samþykkir hæstv. ráðherra þetta pukur? Ég spyr: Hvernig má það vera í ljósi þess að hæstv. ráðherra gerði mikið úr þeim árangri sem stjórnarandstaðan náði þegar lögin fóru í gegnum Alþingi Íslendinga, að við náðum sem sagt þeim árangri að tryggja að upplýsingalögin giltu um Ríkisútvarpið ohf.?

Ég tel nauðsynlegt að upplýsa hvort þetta pukur sé með vitund og vilja hæstv. menntamálaráðherra.