135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Evrópumál.

[15:30]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Mér fannst þetta nokkuð sérkennileg formúlering í lokin. Ég held að við sem störfum á Alþingi hljótum öll að virða þingræðið. Auðvitað á það sem ríkisstjórnin gerir og framkvæmdarvaldið á hverjum tíma að hafa á bak við sig þingmeirihluta þannig að það er ekkert óeðlilegt að vísa í þingið í því sambandi og ekki síst í eins miklu hagsmunamáli og hér er um að ræða.

Þingmaðurinn spyr mig hvort ég hafi trú á því að það komi einhver afurð út úr þessari nefnd miðað við hvernig til tókst um skipun hennar. Þessu verða flokkarnir svolítið að svara hver fyrir sig. Hvernig tókst til um skipan nefndarinnar af hálfu Framsóknarflokksins? Ég veit ekki hvort hv. þm. Birkir Jón Jónsson sem þar situr er fulltrúi Valgerðar Sverrisdóttur (Gripið fram í.) eða formannsins, Guðna Ágústssonar. Guðni Ágústsson formaður var á Rás 1 í morgun og talaði með ákveðnum hætti um Evrópusambandið. Valgerður Sverrisdóttir var á Bylgjunni og talaði með allt öðrum hætti þannig að það er nú talað tungum tveim í þessum flokki (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ég veit ekki alveg hvort hv. þm. Birkir Jón Jónsson er fulltrúi Valgerðar eða Guðna.