135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er með nokkru hiki að maður tekur hér upp umræðuna um efnahagsmál, sérstaklega í ljósi nýjustu línu frá ríkisstjórninni sem gengur út á að það sé yfir höfuð óheppilegt að ræða um efnahagsvandann. Þannig er það haft eftir forsætisráðherra á fundi Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn var að mikil opinber umræða um þetta geti verið óheppileg og skapað óraunhæfar væntingar og þar með haft neikvæð áhrif.

Fjármálaráðherra, sem orðum er hér beint til, lét hafa eftir sér í Viðskiptablaðinu á miðvikudaginn, með leyfi forseta:

„Það er ekki allt fengið með því að tala voðalega mikið um þessa hluti.“

Þetta er hin nýja lína ríkisstjórnarinnar. Væntanlega er þá kominn hér nýjasti sökudólgurinn í efnahagsvandanum. Það er ekki lengur Seðlabankinn, ekki lengur Danir, ekki lengur vondir vogunarsjóðir — heldur umræðan sjálf. Það er hún sem er vandinn ef marka má þessi orð ráðherranna.

Lausnin er þá væntanlega að hætta að tala um vandann. Það sem er ekki rætt er ekki til, eða hvað? Nei, ætli menn verði ekki að láta sig hafa það, virðulegi forseti, að tala um þetta engu að síður og þar á meðal hina nýju þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem er afar athyglisverð, ekki síst þegar hún er borin saman við fáeinum dögum eldri þjóðhagsspá Seðlabankans. Það hlýtur að vekja mikla athygli að í hverju einasta tilviki er fjármálaráðuneytið bjartsýnna eða öllu heldur minna svartsýnt en Seðlabankinn. Fjármálaráðuneytið spáir mun minni verðbólgu strax á þessu ári en einkanlega á árunum 2009 og 2010. Það spáir því að verðbólguviðmið Seðlabankans náist á síðari hluta næsta árs en Seðlabankinn spáir því sjálfur að hans eigin verðbólgumarkmið náist ekki fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2010.

Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að engu að síður er í forsendum þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins gert ráð fyrir röð af álversframkvæmdum sem væntanlega draga ekki úr þenslu og verðbólgu. Fjármálaráðuneytið spáir mun minni viðskiptahalla, einkanlega á næsta og þarnæsta ári. Þar munar uppsafnað sennilega um 150–200 milljörðum hvað viðskiptahallinn á að verða minni á núgildandi verðlagi samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins en spá Seðlabankans.

Fjármálaráðuneytið spáir meiri hagvexti eða öllu heldur minni samdrætti strax á næsta ári og munar þar miklu þar sem Seðlabankinn spáir 2,5% samdrætti en fjármálaráðuneytið 0,7%, og fjármálaráðuneytið spáir vexti á árinu 2010 en Seðlabankinn 1,5% samdrætti.

Þegar kemur að fasteignaverði spáir fjármálaráðuneytið helmingi minni lækkun en Seðlabankinn fram til ársins 2010. Þegar kemur að gengi krónunnar spáir fjármálaráðuneytið að gengið taki að styrkjast á nýjan leik bæði fyrr og meir en Seðlabankinn gerir og munar þar miklu í lokin eða gengisvísitölu 130 í lok spátímans hjá fjármálaráðuneytinu en yfir 140 hjá Seðlabankanum.

Hvernig stendur á því að í hverju einasta tilviki er spá fjármálaráðuneytisins til muna hagstæðari? Er ekki eitthvað að, frú forseti, þegar þessum meginstofnunum sem gera spágerð af hálfu opinberra aðila ber svona illa saman? Þá kemur að minni fyrstu spurningu: Telur hæstv. fjármálaráðherra að þessi aðferðafræði gangi upp? Eða vantar okkur á nýjan leik faglega, sjálfstæða og óháða stofnun, eins konar þjóðhagsstofnun sem væntanlega mundi þá starfa í skjóli Alþingis og gæti með trúverðugum, sjálfstæðum og hlutlausum hætti gert vandaðar þjóðhagsspár?

Í öðru lagi spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann þetta ásættanlegar þjóðhagshorfur? Við skulum ekki gleyma efninu sjálfu, þeim kolsvörtu horfum sem eru fram undan að óbreyttu næstu þrjú árin. Hvað segir hæstv. fjármálaráðherra um þó að það séu ekki nema þjóðhagshorfurnar samkvæmt hans eigin spá svo að við tölum nú ekki um ef svo illa fer eins og Seðlabankinn spáir? Eru þetta þjóðhagshorfur sem við getum sætt okkur við, viðskiptahalli uppsafnaður af stærðargráðunni 500–600 milljarðar kr. á þessu ári og hinum tveimur næstu? Þolir þjóðarbúið þær erlendu viðbótarskuldir?

Í þriðja lagi, þó að það sé að bera í bakkafullan lækinn: Getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur eitthvað hér um tilvonandi aðgerðir? Bretlandsbanki hafðist að í morgun en það gerist lítið á Íslandi.

Í fjórða og síðasta lagi: Mun hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) í ljósi þessara gjörbreyttu þjóðhagsforsendna leggja fyrir þingið fjáraukalög í vor?