135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:45]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við áttum ofurlítinn orðastað um þetta í síðustu viku undir liðnum um störf þingsins, þ.e. umræðu um greiningardeildirnar, Seðlabankann og efnahagsskrifstofuna, og þá benti ég á að menn ættu að kynna sér fráviksspárnar og það væri í raun og veru samhljómur með þessum spám ef menn litu til beggja átta. Vissulega má segja að í þeim séu sveiflur sem ræðst af því að menn nota mismunandi reiknilíkön.

Við fengum efnahagsskrifstofuna á fund okkar í fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd um miðjan janúar og þá ætluðu þeir að taka upp breytingar á reiknilíkani sínu með tilliti til þátta tekna en samkvæmt rammagrein 5 sem er núna í þjóðhagsspánni eru sýndar miklar sveiflur þar í þáttatekjunum. Menn vildu skoða það enn frekar en hins vegar er ekki að sjá að það sé búið að breyta reiknilíkaninu til þess. Það verður væntanlega gert á þessu ári.

Það sem ég hef aðallega skoðað, virðulegi forseti, er í raun og veru breytingin á spánni miðað við það sem boðað var þann 1. október þegar haustskýrslan kom út. Það er alveg augljóst að það eru þó nokkuð miklar breytingar í spánni, bæði í viðskiptahallanum, verðbólgunni og hagvextinum og síðan líka, eins og hér hefur komið fram, verður aukinn samdráttur í einkaneyslu og íbúðabyggingum sem leiðir til þess að hagvöxtur mun dragast saman meira en gert var ráð fyrir. Það víkur þar af leiðandi að forsendum fjárlaga og ég hef sagt að á þessu stigi telji ég ekki ástæðu til að endurskoða fjárlögin eða taka upp forsendurnar miðað við þær spár sem hafa komið fram núna, miðað við þriggja mánaða rekstur ríkisins. Hins vegar er ljóst að við verðum alltaf að horfa til með hverri spá fyrir sig og ef það þarf að taka upp forsendur fjárlaga að nýju held ég að hvorki nokkurt okkar sem hér erum inni, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) né fjármálaráðuneytið víki sér undan slíku.