135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:47]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi nýjasta þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er afar athyglisverð fyrir ýmissa hluta sakir, m.a. þeirra sem hv. málshefjandi vakti athygli á, sem eru veruleg frávik í spá ráðuneytisins frá spá Seðlabankans. Það er hins vegar ekki nýtt. Við þekkjum það sem höfum komið nálægt fjárlaganefnd á síðustu árum að það er nokkuð landlægur eiginleiki hjá fjármálaráðuneytinu að spá með öðrum hætti en aðrir aðilar, t.d. bæði Seðlabanki og Þjóðhagsstofnun meðan hún var og hét.

Það sem mér finnst eiginlega athyglisverðast í þessari spá er að útlitið næstu árin er ekkert sérlega bjart. Hagvöxtur mun verða mjög lítill litið til næstu þriggja ára, hverfandi samanlagt yfir þessi þrjú ár. Ef horft er til næstu fimm ára má búast við samkvæmt þessari spá að hagvöxtur verði ekki meiri en 2–3% yfir fimm ára tímabil sem þýðir umtalsverða kjararýrnun á þessum tíma þegar það er borið saman við þá verðbólguspá sem er á þessu tímabili. Fjármálaráðherra segir einfaldlega með þessari spá að fram undan sé kjararýrnun og, það sem verra er, áframhaldandi skuldasöfnun við útlönd því að viðskiptahallinn verður áfram mjög mikill á komandi árum.

Það sem mér finnst athyglisverðast, virðulegi forseti, er að svör ráðuneytisins við þessari stöðu eru einungis þau að ráðast í frekari stóriðju. Það virðist ekki vera gert ráð fyrir því að þorskstofninn braggist á næstu fimm árum miðað við þær tölur sem sjá má í skýrslunni þannig að landsbyggðin á að búa sig undir áframhaldandi samdrátt í höfuðatvinnuvegi sínum. Hæstv. fjármálaráðherra sér engin sóknarfæri í þekkingariðnaðinum, fjármálastarfseminni (Forseti hringir.) og öðrum atvinnugreinum sem menn hafa horft til til að skapa ný störf á komandi árum, virðulegi forseti.