135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[15:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Við ræðum um þjóðhagsspá og þá stöðu sem er í hagkerfinu. Undir það get ég tekið hjá hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Illuga Gunnarssyni að vitaskuld þarf ríkisstjórnin að hafa það andrými að geta framkvæmt án þess að tilkynna um þær aðgerðir fyrir fram. Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir aðgerðum í efnahagsmálum núna í hartnær ár og ekki bólar á þeim enn. Það fer að verða svolítið hjáróma að tala um að það eigi að gera eitthvað sem eigi ekki að tilkynna um. Það er löngu kominn tími á aðgerðir í þessum efnum.

Það er annað sem mig langar til að bæta við í spurningabunkann hjá hæstv. fjármálaráðherra — sem ég geri mér grein fyrir að eru orðnar nokkrar en ég vil biðja hann þess lengstra orða að sleppa þessari ekki — hvort hann telji, einmitt vegna þeirra frávika sem eru í spánum, eitthvert samræmi í þeim litlu efnahagsaðgerðum sem hér eru nú í gangi og spá fjármálaráðuneytisins. Ég sjálfur tel, og veit að margir hagfræðingar eru mér sammála í því, að það að halda uppi háum vöxtum þegar fyrirséður er samdráttur, og samdráttarskeið þegar hafið, nær ekki nokkurri átt. Það væri fróðlegt að vita hver afstaða fjármálaráðherra er til þess því að einmitt vegna þess að Seðlabankinn spáir því að þenslan haldist meiri en nokkur efni eru til og heldur en spáð er í spá fjármálaráðuneytisins ýtir það kannski undir að það sé hægt að réttlæta þessa hávaxtastefnu. Hún gengur þvert á það sem allar aðrar þjóðir við svipaðar aðstæður eru að gera og þvert á allar helstu kenningar. Við höfum í rauninni ekki haft neitt gott af þessari hávaxtastefnu Seðlabankans, (Forseti hringir.) hvorki nú né fyrr.