135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

ný fjárhagsspá fjármálaráðuneytis.

[16:03]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir ágæta umræðu, miklu betri umræðu en ég átti von á eftir fyrstu ræðuna. En ef ég hef verið með hrokafull ónot í garð hv. þingmanns þá bið ég hann afsökunar á því. Hins vegar vil ég segja um það sem hann segir um samanburð á spánum tveimur að þær eru ekki í austur og vestur. Þær eru í sömu áttina, það er mismunandi hraði á breytingunum og breytingarnar ganga mismunandi langt. Í því felst meginmunurinn á spánum.

Og að ég hafi ekkert til málanna að leggja annað en stóriðju, það er ekki hægt að finna þess stað í orðum mínum. Ég talaði um fjárfestingar og var opinn fyrir því en sem betur fer eru þeir aðilar sem hafa áhuga á að fjárfesta á Íslandi fleiri og sumir hverjir annars eðlis en þeir hafa verið á undanförnum árum. Þar er ekki aðeins um álver að ræða og það er meira að segja svo að það er ekki bara um stóriðju að ræða ef hægt er að hafa annan skilning á stóriðju en að það sé álver.

Hv. þm. Jón Bjarnason er greinilega sligaður af trúverðugleikanum. (JBjarn: Það sligar ekki mig.) Það sem hann gerir í nánast hvert einasta skipti sem hann kemur hingað í pontu til að ræða þessi mál er að ráðast á trúverðugleika starfsmanna ráðuneyta og stofnana, að þetta fólk sitji undir því að ég stýri spánum hjá því. En ég vil taka undir með þeim ræðumönnum sem töluðu um það áðan að við þyrftum að gæta að stöðu ríkissjóðs og þó að vissulega sé óvissa í spánum eru ekki forsendur til þess að fara í það að breyta fjárlögunum. Það er reyndar líka í samræmi við það sem hv. málshefjandi sagði áðan að Seðlabankinn spáði meiri hagvexti á þessu ári en fjármálaráðuneytið og af þeim sökum ættum við þá ekki að þurfa (Forseti hringir.) að hafa áhyggjur af fjárlögum þessa árs.