135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:37]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hver það er sem rekur hv. þm. Mörð Árnason áfram í skoðanaskiptum um þetta mál en ég get sagt fyrir mína parta að ég er hér að sjálfsögðu að tala út frá minni sannfæringu í þessu máli. Það vill svo til að hún fer ágætlega saman við sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, enda er ég þingmaður þess flokks og þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að við þingmenn þess flokks erum mörg hver afskaplega sammála um þetta atriði.

Það sem við erum að segja er að það kom fram ákveðinn blæbrigðamunur þegar þetta mál var tekið til umræðu í síðustu viku. Það kann að vel að vera að ekki eigi að vísa hér í viðtöl frá árinu 2004 við formann Samfylkingarinnar. Látum það liggja á milli hluta. En í þessari umræðu kom fram blæbrigðamunur í málflutningi samfylkingarmanna, m.a. þeirra tveggja hv. þingmanna sem hér eru, Katrínar Júlíusdóttur og Marðar Árnasonar, annars vegar og hv. varaformanns menntamálanefndar hins vegar. Það kann vel að vera að þau hafi ekki greint þann blæbrigðamun en við gerðum það mörg. Við teljum sömuleiðis að orðalag í frumvarpinu sjálfu, sem er stjórnarfrumvarp samþykkt af báðum stjórnarflokkum, og í greinargerðinni gefi tilefni til þess að ætla að þar eigi að koma inn skólagjaldahugsuninni.

Og við spyrjum: Ef það er rangt hjá okkur, ef það er rangur skilningur, er þá ekki rétt að við sameinumst um að taka þannig á því máli að um það þurfi ekki að deila? Vilja menn ekki einu sinni gera það? Vill Samfylkingin ekki taka þátt í því að eyða þeirri óvissu eða þeim mismunandi sjónarmiðum sem reyndar eru ekki bara hér í þingsalnum um þetta atriði heldur líka úti í samfélaginu? Við höfum orðið vör við það og stúdentar hafa m.a. verið að tjá sig um þetta mál með blaðaskrifum og öðru slíku.

Það liggur ljóst fyrir að í landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins frá 2007 segir klárlega að nemendur eigi að taka í auknum mæli þátt í kostnaði við nám sitt og það er það sem við óttumst að sé að endurspeglast í þessu frumvarpi. Ef það er rangt hjá okkur þá skulum við bara fá þetta mál út af borðinu með því að sameinast um nauðsynlegar breytingar (Forseti hringir.) á frumvarpinu til að um þetta þurfi ekki að deila.