135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir alveg merkilegt að nú sé að koma í ljós að helstu áhugamenn um umræðu um skólagjöld eru hv. þingmenn Vinstri grænna vegna þess að í þessu frumvarpi er ekki um þau rætt. Ég fagna því reyndar að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fjallaði a.m.k. efnislega um frumvarpið í ræðu sinni áðan sem er meira en sagt verður um aðra þingmenn Vinstri grænna sem hafa talað í þessu máli. Þeir hafa miklu frekar viljað tala um sitt greinilega mikla áhugamál sem eru skólagjöld við Háskóla Íslands eða skólagjöld við opinbera háskóla.

Ég get sannfært hv. þingmann um það og ég skil ekki svona leiðangur, að menn fari í þann leiðangur að grafa upp ummæli frá árinu 2004 sem taka ekki afdráttarlausa afstöðu með skólagjöldum í hvaða formi sem er þegar fyrir liggur stefna Samfylkingarinnar frá árinu 2007 þar sem á annað þúsund manns mættu á landsfund Samfylkingarinnar og kváðu skýrt úr um það hver afstaða Samfylkingarinnar er gagnvart skólagjöldum. Ég hef lesið það hér upp og ég get gert það aftur þannig að hv. þingmaður velkist ekki í neinum vafa um hver stefna okkar er. Hún er sú, með leyfi forseta:

„Samfylkingin vill stuðla að því að öllum standi til boða gjaldfrjáls menntun frá og með leikskóla til og með háskóla. Tryggja að skólagjöld verði ekki tekin upp í almennu grunn- og framhaldsnámi við opinbera háskóla.“

Ég vona að þetta dugi hv. þingmanni og hann geti þá sofið rólega í nótt og þangað til við samþykkjum þetta annars ágæta frumvarp, því að ég held að þetta ætti að færa honum heim sanninn um það hver stefna Samfylkingarinnar er og hann ætti að hætta að hafa þessar áhyggjur.

Ég vona að fólk geti farið að ræða um stóru drættina í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) og hætti að velta sér upp úr því sem ekki er þar þó að menn hafi sérstakan áhuga á því.