135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:46]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með að hv. þingmaður hefur áttað sig á stefnu okkar samfylkingarfólks í þessum efnum. Hún liggur skýr fyrir í umræðum um málið. Við getum þá farið að ræða efnisatriði frumvarpsins.

Ég er ein af þeim sem hafa lýst áhyggjum af ákveðnum þáttum í 24. gr. Það snýr ekki að því að verið sé að opna fyrir flæði skólagjalda heldur tel ég við þurfum að fara að ræða þessi þjónustugjöld og gera það opinskátt. Mun ég gera grein fyrir því í ræðu minni hér á eftir.

Ég hef talsvert undrast setninguna sem ýmsir hv. þingmenn úr stjórnarandstöðu hafa hengt sig í, þ.e. að háskólaráð geti gert tillögur til ráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda. Mér finnst hún óþörf og ekki skipta neinu máli. Ég veit ekki betur en háskólaráð hafi hingað til getað fjallað um þessi mál ef það hefur viljað. Ekki þarf að gefa þeim einhverja heimild í lögum til þess eins og er í frumvarpinu. (Forseti hringir.)

Aðalatriðið er að skrásetningargjöld verða aldrei hækkuð nema það komi fyrir þingið fyrst. Talan (Forseti hringir.) er lögbundin verði frumvarpið að veruleika og hefur verið það hingað til.