135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:49]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma aðeins inn í þessa umræðu um frumvarp til laga um háskóla sem ég fagna mjög í grunninn. Ég fagna því ágæta frumvarpi vegna þess að þar er verið að bregðast við mjög ört stækkandi stofnunum, eins og Háskóla Íslands sem hefur stækkað allverulega með samrunanum við Kennaraháskóla Íslands. Það sem boðað er í frumvarpinu er afar áhugavert og mjög til bóta, verið er að skipta háskólanum upp í sterkari einingar, þ.e. innan þeirrar regnhlífar sem Háskóli Íslands yrði, og þannig brugðist við sístækkandi skóla og þjónustan færð nær neytandanum, þ.e. nemandanum.

En það breytir því ekki að ég tel að í megindráttum sé frumvarpið býsna gott. Við eigum þó eftir að fá að heyra mismunandi sjónarmið fyrir nefndinni þegar við förum að fá umsagnir og þá verður fjallað ítarlegar um málið. Enda veit ég ekki til þess að algjörlega fullkomið frumvarp hafi nokkru sinni verið lagt fyrir þingið.

Þó eru atriði í frumvarpinu sem ég hef áhyggjur af og ætla að gera örlitla grein fyrir. Ég hef í fyrsta lagi talsverðar áhyggjur, og hef tekið undir áhyggjur nemenda hvað það varðar, af nemendalýðræði í háskólaráði. Mér þykir margt í frumvarpinu bera þess merki, og þá ekki síst 6. gr., að ekki hafi verið haft samráð við nemendur við feril og vinnslu frumvarpsins sem sést í greinargerð með því. Þar sést hverjir tóku þátt í samningu frumvarpsins og undirbúningi og áttu nemendur ekki fulltrúa þar. Þetta sést t.d. í 6. gr. þar sem segir að fulltrúar séu valdir til setu í ráðinu til þriggja ára. Nemendur hafa hingað til haft sitt lýðræðislega kerfi við val á fulltrúum sínum í háskólaráð og er þetta á skjön við þann feril og hvernig hann hefur verið.

Í síðasta málslið 6. gr. segir að háskólaráð setji nánari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og nemenda. Nemendur hafa lýðræðislegt módel og þeir eru hluti af háskólasamfélaginu og eru með lýðræðislega uppbyggingu sem á sér djúpar sögulegar rætur. Ég tel mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þessara hefða námsmanna og nemenda við Háskóla Íslands. Þar er nefnilega um mjög merkilegan hlut að ræða.

Mér finnst auk þess mjög mikilvægt að hlusta á þær raddir sem berast frá nemendum um fækkun fulltrúa þeirra í háskólaráði úr 20% niður í um 14%. Mér finnst mikilvægt að hlusta á það. Ég var á málþingi hjá stúdentaráði um daginn. Einn fyrirspyrjenda minnti á Bologna-ferlið en þar væri kveðið á um að nemendur eigi að eiga sína rödd. Maður spyr því hvort mögulega sé verið að stíga einhver skref aftur á bak hvað nemendalýðræði varðar. En þetta eigum við eftir að ræða í nefndinni.

Á þessu ágæta málþingi vaknaði líka sú spurning hvort það sama þyrfti að gilda um báða opinberu háskólana sem við vitum að falla undir frumvarpið, þ.e. Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Af hverju má ekki taka tillit til lýðræðislegra hefða og mismunandi hefða í þessum skólum. Mér finnst það áhugavert sjónarmið og ég veit að við eigum eftir að fjalla um það í nefndinni.

Ég hef líka áhyggjur af því að verið sé að fækka fulltrúum háskólasamfélagsins í háskólaráði og meiri hlutinn þar verði utan háskólans. Ég hef áhyggjur af þessu af mörgum ástæðum. Ekki síst út af þeirri lýðræðislegu akademísku hefð sem er innan Háskóla Íslands. Nýverið mældist Háskóli Íslands með traust 90% þjóðarinnar þannig að fyrirkomulagið sem þar hefur tíðkast hefur gefist vel. Ég efast ekki um að þessi mikla þátttaka og aðkoma fulltrúa innan háskólasamfélagsins eigi einhvern hlut í því. Það gæti átt hlut í því að gefa honum þessa sterku ímynd og veita honum þá traustu ásýnd sem hann hefur augljóslega meðal þjóðarinnar.

Um það hefur verið rætt, og hv. formaður menntamálanefndar benti á það í ræðu sinni, sem er að vissu leyti rétt, að með þessari breytingu sé verið að færa meiri völd undir skólana sjálfa og þar muni rödd nemenda geta komist að, þ.e. í verkefnum frá degi til dags. Ég bendi engu að síður á að þó aðkoma nemenda verði styrkt með einhverjum hætti í skólanum hefur háskólaráð, samkvæmt 5. gr., mjög mikið hlutverk sem er að marka heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og móta skipulag háskóla. Það fer með almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana. Það fer með úrskurðarvald í málefnum háskólans, einstakra skóla og stofnana. Það ber ábyrgð á framkvæmd samstarfssamninga sem háskólinn gerir við fyrirtæki og aðrar stofnanir. Það hefur yfirumsjón með fyrirtækjasjóðum og almennum eignum háskólans og setur reglur og viðmið um ráðningu starfsliðs skóla. Þannig að hlutverk þess er enn þá mjög veigamikið og mikilvægt og ég held að við þurfum að fara varlega í að breyta samsetningunni í því með jafnafdrifaríkum hætti og hér er boðað.

Virðulegi forseti. Ég vil líka koma inn á 24. gr. frumvarpsins en hún fjallar um fjármögnun. Ég hef lýst áhyggjum af ákveðnum þáttum þar, b-liður þeirrar greinar er t.d. nýr í lögum. Þar er verið að bæta við heimild til að taka gjöld til að standa undir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Í greinargerðinni er fjallað um að á bak við heimild til þjónustugjalda búi þau rök að rétt sé að virkja kostnaðarvitund, einkum nemenda og starfsmanna háskólanna — gjaldtakan eigi að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni.

Ég hef áhyggjur af þessu, virðulegi forseti, vegna þess að við eigum eftir að ræða tilgang og þróun slíkra þjónustugjalda. Ég vil ekki standa að því að þeir sem komast í upptökupróf eða í fjarpróf, svo við tökum sem dæmi, séu þeir sem eigi 3–8 þús. kr. eins og nú er tekið fyrir fjarprófin en hinir sem ekki eiga þessa þúsundkalla komist ekki.

Mér finnst skipta máli að við förum að ræða hvernig þetta er að þróast og ég vona að það komi fram í vinnu nefndarinnar, þ.e. hvernig þróun þeirra þjónustugjalda sem hér eru nefnd í fimm liðum hefur verið og hvernig þau eru byggð upp.

Varðandi b-liðinn get ég t.d. ekki fundið upplýsingar um annað en að innan Háskóla Íslands sé þetta eingöngu gert til þess að óska eftir gjöldum fyrir fjarpróf. Þá er það á bilinu 3–8 þús. kr. allt eftir því hvernig og hvar prófin eru tekin og þá fyrir hvert próf.

Við þekkjum öll álit umboðsmanns Alþingis út af kostnaði við inntökupróf í læknadeild sem varð umdeilt á sínum tíma, það dæmi þekkjum við líka úr Háskóla Íslands. Önnur dæmi þekki ég ekki um gjaldtöku fyrir það sem talið er til í b-lið 24. gr. Mér þætti vænt um að vera þá leiðrétt með það. Ég tel mikilvægt að við förum að fara yfir það hvert þessi þróun leiðir okkur. Ég tel heldur ekki ráðlegt að við séum með mjög mikið af gjöldum fyrir hitt og þetta. Þetta safnast allt saman og getur orðið veruleg upphæð sem ekki er tekið tillit til við veitingu námslána.

Ég vil líka, virðulegi forseti, nýta tækifærið og koma aðeins inn á orðalagið í greinargerð með 24. gr. þar sem fram kemur að menn virðast telja að upp hljóti að koma einhver kostnaðarvitund hjá nemendum við háskólann. Ég get sannfært fólk um það að ungt fólk sem þarf að sjá um sig sjálft og er á námslánum hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna — þau eru ekki há og gerð er krafa um námsárangur til þess að fá þau greidd út — hefur ágætiskostnaðarvitund. Mér finnst því dálítið erfitt að kyngja því þegar menn draga þetta orðalag úr pússi sínu. Mér þykir miður að sjá það í greinargerð frumvarpsins. Ég er sannfærð um og veit að námsmenn hafa ágætiskostnaðarvitund. Ég held að við eigum ekki að tala um að fara að nota gjöld sem stýritæki eða til að stýra eftirspurn sérstaklega vegna þess að þá förum við mögulega að hafa áhrif á það hverjir geta tekið upp prófin sín og hverjir ekki.

Mér fannst mikilvægt, virðulegi forseti, að koma þessu hér að. Ég vona að við eigum eftir að eiga um þetta góða umræðu í menntamálanefnd. Ég ætla ekki að fara í djúpa umræðu um hina skökku samkeppnisstöðu. Því hefur þó verið fleygt í þessari umræðu að vilji Háskóli Íslands komast í hóp hundrað bestu háskóla í heimi verði að jafna samkeppnisstöðu hans og þar er ég að mörgu leyti sammála. Ég er hins vegar ósammála því að það verði endilega gert með skólagjöldum og þess vegna eigi að ræða skólagjöld við háskóla. Ef við skoðum hundrað bestu háskóla í heimi, hverjir það eru frá síðasta ári, eru þar a.m.k. sjö norrænir háskólar sem ekki taka skólagjöld. Skólagjöld eru ekki forsenda þess að háskólum vegni vel.

Og ég tel að við eigum að fara aðrar leiðir í að jafna samkeppnisstöðu og ég hef nefnt þær áður. Ég tel að rannsóknarsamningurinn sem gerður var við Háskóla Íslands sé góðs viti. Þar er vísir að þeirri leið sem ég tel heillavænlegast að fara sem er að viðurkenna þá sérstöðu Háskóla Íslands að þurfa að kenna nánast allt undir sólinni. Gerð er allt önnur krafa á hann en aðra skóla í landinu. Við gerum kröfur um að hann kenni ýmsar þjóðlegar greinar sem ekki eru markaðsvænar ef svo má að orði komast. Hef ég því fagnað því að í rannsóknarsamningnum sé vísir að því að fara þessa leið og viðurkenna sérstöðu skólans. Auðvitað er það ekki allsherjarlausn en með því getum við að einhverju leyti jafnað samkeppnisstöðuna.

Ég tel á sama hátt mjög mikilvægt að við förum að ræða uppbyggingu á rannsóknarstarfi innan sjálfstæðu háskólanna vegna þess að þar hefur hallað á þá. Ég hef komið að því áður í ræðum mínum. Þetta þurfum við að fara mjög vandlega yfir og fordómalaust. Það er þetta sem við í Samfylkingunni eigum við þegar við erum að tala um fordómalausa umræðu um samkeppnisstöðuna. Það er ekki þannig að við séum að tala um fordómalausa umræðu um skólagjöld. Það virðist vera að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séu gjörsamlega með skólagjöldin á heilanum. Það er þetta sem við erum að tala um þegar við tölum um fordómaleysi.

Virðulegi forseti. Þar sem tími minn er að renna út verð ég líka að koma því að að mér finnst að hv. menntamálanefnd þurfi aðeins að skoða 18. gr. Mér þykir nálgunin í henni full neikvæð. Mér finnst að slík grein eigi að ganga út frá því að við viljum taka á móti öllum nemendum en ekki eins og hér virðist gert. Við göngum eiginlega út frá því að undir öllum kringumstæðum þurfi að takmarka aðgang að námi. Mér finnst við mega skoða orðalagið í þessu. Ég vil hafa lög jákvæð og ég vil hafa greinar af þessu tagi jákvæðar og mér finnst nálgunin hér vera fullneikvæð.

Virðulegi forseti. Í heildina litið tel ég þetta sterkt frumvarp fyrir Háskóla Íslands. Ég vona að góð umræða verði um þær þrjár greinar sem ég hef gert athugasemdir við. Við eigum eftir að fara vel í gegnum þær í nefndinni og vona ég að á þeim verði gerðar einhverjar þær breytingar þannig að ásýnd þeirra mildist.

Ég hlakka annars til umræðunnar í menntamálanefnd og vona (Forseti hringir.) að hún fari upp úr því fari skólagjaldaumræðu sem hefur verið en er algjörlega óviðeigandi í tengslum við frumvarpið.