135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók eftir því í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að hann tók undir þá gagnrýni sem meðal annars hefur komið fram frá okkur þingmönnum Vinstri grænna um 6. gr. frumvarpsins og er nú ánægjulegt að geta bent á að gagnrýni okkar á þetta frumvarp hefur ekki bara verið um skólagjöldin. Það hafa ýmis önnur atriði komið fram af okkar hálfu. Það vekur athygli mína að hv. þm. Mörður Árnason tekur í raun undir þá gagnrýni sem við höfum komið fram með á þetta atriði þannig að ég vænti þess að það fái efnislega umfjöllun á vettvangi nefndarinnar og það gefist kostur á því að fjalla betur um það. Fleiri aðilar, meðal annars stúdentar, hafa gert athugasemdir við þetta ákvæði sérstaklega þannig að mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á því að þrátt fyrir að hér sé á ferðinni stjórnarfrumvarp er bersýnilegt að menn áskilja sér rétt til þess að fjalla efnislega um það og taka ákvarðanir eins og eðlilegt er að sé gert að sjálfsögðu af hálfu Alþingis og í þingnefndum, þ.e. að menn fari efnislega yfir þessi mál.

Vísað er til þess í umfjöllun um þetta mál að sú þróun hafi verið meðal annars í háskólum í kringum okkur að það hafi komið aðilar utan úr samfélaginu inn í háskólaráðin og jafnvel hefur verið látið að því liggja að þeir skipi þar meiri hluta og það mun vera þannig í einhverjum tilvikum. En eftir því sem ég best þekki til mun þessi þróun heldur vera á undanhaldi, að þó hún hafi átt sér stað undanfarin ár muni það heldur vera á undanhaldi og menn séu frekar að fara aftur í þann farveg að háskólasamfélagið sjálft sé með meiri hluta í háskólaráðunum, jafnvel í þeim háskólum í löndunum í kringum okkur þar sem þróunin var á hinn veginn. Menn eru svona að fara aftur í þessu. Ég bara fagna því að þetta viðhorf hefur komið fram hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) varðandi 6. gr.