135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:48]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á áhugaverða þætti sem ekki endilega hafa verið ræddir svo mikið hér í dag.

Mig langar að byrja á að þakka honum fyrir, eins og hann heldur fram, að hann haldi Samfylkingunni við efnið en bendi honum í leiðinni á það að hann kom hvergi nærri þegar við héldum landsfund okkar í fyrra og samþykktum ályktun sem ég hef hér kynnt þó nokkrum sinnum. (Gripið fram í.) Hv. þingmanni var hvorki boðið né heldur kom hann af fúsum og frjálsum vilja. Hann hefði þó verið velkominn í okkar hóp og ávallt velkominn enda oft snertifletir í málflutningi okkar.

Hv. þingmaður kom inn á áhugaverðan hlut, það að helmingurinn af öllum námslánunum sé í raun styrkur frá ríkinu, helmingurinn af útlánum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það kom fram í svari til mín í fyrra frá hæstv. menntamálaráðherra. Það sem ég spurði um var hversu hátt þetta hlutfall yrði sem í raun og veru væri kostnaður LÍN af öllum veittum lánum ef tekin yrðu upp sambærileg skólagjöld við opinberu skólana og eru í einkaskólunum. Þau mundu þá bætast við og lánasjóðurinn lána fyrir þeim eins og til hinna. Þá kom fram, sem mér þótti dálítið merkilegt, frá hæstv. menntamálaráðherra að það gæti orðið allt að 65%.

Þetta er mjög áhugaverð umræða. Við þurfum þá að fara að ræða það ef menn ætla að fara að taka upp skólagjöld við opinberu háskólana að því fylgir líka gríðarlegur kostnaður fyrir ríkið og við þurfum að velta fyrir okkur hverjir væru kostir þess að velta þeim fjármunum frá ríkinu í gegnum nemendur með þeim hætti sem skólagjaldið er. Hvaða kostir eru fólgnir í því í staðinn fyrir að greiða þetta bara til skólanna beint? Mér þykir þetta áhugaverð umræða og vildi koma þessum punktum hér að.