135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[19:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það einmitt svo eins og hæstv. menntamálaráðherra veit og hefur sagt að hér með er málið komið í hendur þingsins, þ.e. úr höndum framkvæmdarvaldsins og í hendur þingsins sem kemur til með að fjalla um það í menntamálanefnd.

Það er alveg ljóst að það ríkir ágreiningur um ákveðna þætti þessa frumvarps milli stjórnarflokkanna þótt svo að hæstv. menntamálaráðherra hafi hér í ræðu sinni sagt að frumvarpið hafi verið samþykkt í ríkisstjórninni með þeim „prinsippum“ sem fram koma í því. Þar átti hún sérstaklega við skipan háskólaráðsins.

Nú vitum við að ungir jafnaðarmenn hafa ályktað á aðra vegu varðandi skipan háskólaráðs en það sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt til í frumvarpi sínu. Það sjónarmið hefur notið ákveðinnar velvildar hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem hér hafa talað í dag svo það er alveg ljóst að það verður ágreiningur inni í nefndinni um það hvernig taka eigi á málefnum háskólaráðsins.

Ég vildi nú bara undirstrika hér að það eru ákveðnir þættir í þessu máli. Það er ekki bara 24. gr. og skólagjöldin heldur er það líka skipan háskólaráðsins þar sem núningur er milli stjórnarflokkanna og við tökum á því máli núna, þingið og hv. þingmenn í menntamálanefnd.

En ég vek athygli á því varðandi hugmyndir um að halda nöfnum háskólanna inni í lögunum. Ég er hlynnt því að það verði gert. Ég kem til með leita eftir stuðningi við það í menntamálanefnd. Þótt svo við þurfum að breyta einni grein í lögum þegar Landbúnaðarháskóli Íslands fellur inn undir þessi lög þá gerum við það bara.

Ég mun leita eftir stuðningi við það inni í menntamálanefnd að við fáum að telja nöfn háskólanna upp í 1. gr.