135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[20:18]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til umfjöllunar við 1. umr. frumvarp hæstv. samgönguráðherra til laga um Landeyjahöfn. Hæstv. ráðherra hefur rakið tildrög þess að þetta frumvarp er lagt fram og vísaði þar meðal annars til samþykktar Alþingis, í nokkurra ára gamla þingsályktun sem fól ráðherra að hefja rannsóknir á ferjuaðstöðu í Bakkafjöru. Síðan hefur þetta mál verið til umfjöllunar og til athugunar og rannsóknar meðal annars af hálfu Siglingastofnunar og því er þetta mál hér nú flutt.

Framlagning þessa frumvarps vekur upp fjölmargar spurningar. Hér er í raun brotið í blað. Það má kannski segja að hér sé að vissu leyti afturhvarf til gamalla tíma þegar landshafnir voru til en þær voru lagðar af fyrir sennilega hálfum öðrum áratug, þær þrjár eða fjórar sem þá voru starfræktar og hafnir voru almennt og eru almennt í landinu reknar sem sveitarfélagahafnir. Þannig er það samkvæmt þeim hafnalögum sem núna eru í gildi að ég hygg að allar hafnir landsins séu reknar í eigu sveitarfélaga. Þess vegna hlýtur það að sjálfsögðu að vera áleitin spurning hvers vegna það eigi ekki við um þessa höfn og hverju það sætir að setja þurfi sérstök lög um þessa höfn og víkja til hliðar hinum almennu hafnalögum að minnsta kosti að einhverju leyti eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. samgönguráðherra enda þótt gert sé ráð fyrir því að ákvæði hafnalaga geti gilt þar sem það á við eins og hér er sagt. Það er því ákveðin grundvallarspurning að mínum dómi hvers vegna þessi leið er farin.

Nú má segja að hér sé um að ræða höfn uppi á landi sem eigi að þjóna samgöngum til Vestmannaeyja og ef til vill er það skýringin að sveitarfélögin sem þarna eiga hlut að máli hafa ekki getað komið sér saman um rekstur eða eignarhald eða rekstrarform þessara hafnar. Svo kann vel að vera. Engu að síður finnst mér fullgilt að menn velti því fyrir sér hvernig þessu víkur við.

Um leið vekur þetta mál spurningar almennt um samgöngumál til Vestmannaeyja. Skemmst er að minnast þess að hópur Vestmannaeyinga hefur tekið sig saman og staðið fyrir undirskriftasöfnun og í raun lagst gegn því að ráðist verði í þessa framkvæmd og afhent hæstv. ráðherra mótmælaskjal eða einhvers konar yfirlýsingu þar sem lagt er til að fallið verði frá þessum áformum. Ég tók eftir því að í viðtölum við fjölmiðla sagði hæstv. ráðherra að þetta mál væri komið of langt. Það væri ekki hægt að snúa við og þessi mótmæli og athugasemdir væru of seint fram komnar. Nú held ég að það sé ágætt fyrir framkvæmdarvaldið — og ég hef sjálfur mikla reynslu af því sem stjórnmálamaður í meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur og ábyrgðarmaður fyrir ýmsum mikilvægum málaflokkum eins og skipulagsmálum og samgöngumálum, umhverfismálum — að engin ákvörðun er svo heilög að það megi aldrei á neinum tímapunkti velta því upp hvort hún hafi endilega verið rétt og skynsamleg. Ég held að það sé fullt tilefni til þess bæði með framlagningu þessa frumvarps og með vísan til þess sem ég gat um varðandi athugasemdir ýmissa heimamanna að fullt tilefni sé til að velta þessari spurningu fyrir sér. Það hafa verið skiptar skoðanir um þessa lausn. Margir skipstjórnarmenn hafa verið gagnrýnir á siglingaöryggi og maður hefur jafnvel heyrt það frá reyndum skipstjórnarmönnum að þeir mundu ekki fara inn í þessa höfn með farþega.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að þessi gagnrýni sé endilega á rökum reist eða hún vegi það þungt að hún eigi að verða ofan á ef svo má segja. Það er bara hlutur sem mér finnst eðlilegt að verði fjallað um á þinginu í meðförum þess á þessu máli þannig að ég vil ekki gefa mér fyrir fram neina ákveðna skoðun í því. En ég vil velta upp spurningum sem óneitanlega vakna, eins og til dæmis hvaða heildarmat hafi farið fram á samgöngukostum milli lands og Eyja. Hefur til dæmis þessi kostur verið borinn saman við jarðgöng eins og sumir hafa talað fyrir meðal annars á Alþingi eða aðra leið sem hefði falist í hraðsigldari ferju milli Eyja og Þorlákshafnar og hugsanlega betri flugsamgöngur? Hefur verið reiknuð þjóðhagsleg hagkvæmni einstakra kosta? Mér finnst mikilvægt að fá það fram hvort farið hafi verið yfir þjóðhagslega hagkvæmni einstakra valkosta í þessu efni vegna þess að þó að siglingaleiðin milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar sé tiltölulega stutt, miklu styttri en til Þorlákshafnar, þá koma aðrir þættir á móti, til dæmis mun lengri akstursvegalengd til höfuðborgarinnar og ekki má gleyma því að langflestir þeirra sem fara þessa leið frá Vestmannaeyjum eru á leið til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er spurning. Hefur verið farið yfir þessa kosti út frá þjóðhagslegri hagkvæmni? Ég vil segja fyrir mína parta að ég tel alls ekki að Landeyjahöfn sé neitt sérstaklega slæmur kostur út af fyrir sig. Ég vil að það komi fram. Ég tel að þetta sé alls ekki alvondur kostur nema síður sé og að fullgild rök kunni að vera fyrir þessu. Ég hef hlustað á fulltrúa Siglingastofnunar koma á fund samgöngunefndar og gera grein fyrir þessu mannvirki, þessum framkvæmdum og þeirra kynning bendir tvímælalaust til þess að hér sé um tæknilega færa leið að ræða. En ég vil aftur minna á öryggismálin sem ég nefndi áðan.

Af hálfu míns flokks í Suðurkjördæmi fyrir síðustu kosningar var sú afstaða mótuð og meðal annars hefur hún komið fram frá hv. þm. Atla Gíslasyni sem er þingmaður okkar í Suðurkjördæmi — hann gat því miður ekki verið við þessa umræðu í kvöld þar sem hann er á mikilvægum fundi í Hveragerði um önnur brýn þjóðþrifamál, virkjanamál á Hellisheiði. En hann hefur ásamt okkar flokki í Suðurkjördæmi mótað þá afstöðu fyrir síðustu kosningar að í raun væru jarðgöng og stórbættar ferjusiglingar til Þorlákshafnar kannski betri kostur en Landeyjahöfn þótt þeirri leið hafi alls ekki verið hafnað sem slíkri. Síðan hefur þeirri spurningu verið velt upp hvort þessi höfn verði kannski eitthvað annað og meira en ferjuhöfn, hvaða aðrar framkvæmdir hún kallar á til dæmis í vegagerð eða landgerð varðandi byggingar og hvaða áhrif þessi leið hefur á framgang hugmynda um bætta hafnaraðstöðu í Vestmannaeyjum. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort hann muni beita sér fyrir því að í næstu samgönguáætlun verði gert ráð fyrir uppbyggingu Vestmannaeyjahafnar með nýjum viðlegukanti norðan Eiðis sem ég tel að sé mikilvægt að halda til haga í þessari umræðu. Það má ekki detta upp fyrir í samhengi við þessa umræðu um Landeyjahöfn. Ég legg áherslu á þetta. Ég er fyrir mína parta algerlega reiðubúinn að skoða þetta mál opið og án allra fordóma og ætla alls ekkert fyrir fram að leggjast gegn því að þessi verði niðurstaðan. Ég velti samt sem áður upp þessum sjónarmiðum og vek athygli á því að þau hafa komið fram líka af hálfu heimamanna, þó alls ekki allra, og eftir því sem mér skilst hefur sveitarstjórnin, bæjarstjórnin sem slík ekki tekið undir þau viðhorf sem koma fram í undirskriftasöfnuninni þannig að bersýnilegt er að skiptar skoðanir eru um málið og þess vegna mikilvægt að yfir það sé farið. Þetta er meðal annars spurning um samfélagslega og þjóðhagslega hagkvæmni. Það er spurning hvort þessi lausn verður þegar upp er staðið kannski dýrari og hvort hún þjóni ekki nægilega vel samgöngum til og frá Vestmannaeyjum.

Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram. Ég hef séð menn halda því fram og skrifa um að uppi séu efasemdir um að þetta sé góð lausn fyrir þá sem treysta á samgöngur við Vestmannaeyjar um Bakkafjöru. Það hefur líka verið velt upp þeirri spurningu hvort ekki væri eðlilegt að gefa bæjarbúum í Vestmannaeyjum kost á að tjá sig til dæmis í einhvers konar atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er spurning sem mér finnst sjálfsagt að vekja upp í þessu samhengi.

Hæstv. ráðherra fór yfir frumvarpið og hugmyndina á bak við það og rakti það í stuttu máli. Það eru í þessu atriði sem ég velti aðeins fyrir mér eins og með eignarhaldið og rekstur, hér er sem sagt farin önnur leið heldur en almennt gildir í hafnalögunum. Í 4. gr. er fjallað um eignarnámsheimildir sem ég mundi í meðförum nefndarinnar vilja fá frekari skýringar á, þ.e. af hverju menn eru að leita eftir heimild til eignarnáms fyrir fram, hvort það sé eitthvað sérstakt sem liggur í raun í augum uppi að verði að fara í. Það má líka spyrja sig, af því að ráðherrann gat þess að í hafnalögunum væru ekki eignarnámsheimildir, að sveitarfélögin sem eru eigendur hafna hafa auðvitað heimildir til að fara í eignarnám meðal annars af skipulagsástæðum en að sjálfsögðu verða þau að fara eftir lögum og reglum hvað það snertir og leita samninga fyrst og þess háttar. Ég velti þessu að sjálfsögðu upp í þessu samhengi.

Varðandi gjaldtökuheimildir er gert ráð fyrir að ráðherra setji gjaldskrá og einnig það er í mótsögn við hina almennu reglu í hafnalögum. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé í raun eðlilegt með vísan til þess að ákvarðanir um gjaldtöku eru kæranlegar samkvæmt almennri reglu hafnalaganna til samgönguráðherra og velti því þá upp hvaða kæruleiðir séu færar gagnvart notendum þessarar hafnar því að væntanlega eiga þeir að hafa sama rétt og aðrir hvað þetta snertir.

Ég vil líka nefna að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að Siglingastofnun gegni hlutverki hafnarstjórnar eins og það er skilgreint í almennu hafnalögunum. Það finnst mér líka svolítið sérstök aðferð vegna þess að Siglingastofnun hefur samkvæmt almennu hafnalögunum í raun hlutverk sem stjórnsýslustofnun á þessu sviði, meðal annars með alls konar eftirlitshlutverk með starfsemi hafna og þá veltir maður því fyrir sér hver eigi að sinna því hlutverki gagnvart þessari höfn. Hér er sem sagt verið að meðhöndla þessa einu höfn í landinu með allt öðrum hætti en allar aðrar hafnir og ég hef sem sagt um það verulegar efasemdir. Ég hef kannski ekki alveg nákvæmlega á reiðum höndum hugmyndir um það hvernig ætti þá að reka þessa höfn með öðrum hætti nema þá einfaldlega að um hana giltu ákvæði almennu hafnalaganna og hún væri þá rekin af hálfu þess sveitarfélags þar sem hún er staðsett sem er auðvitað líka alveg hægt að velta fyrir sér.

Ég hugsa líka um og velti því upp hver verði þróunin með þessa höfn, hvort hún muni í raun í fyllingu tímans taka við margs konar annars konar hlutverki heldur en að þjóna bara sem ferjuhöfn milli lands og Eyja og hugsanlega þá sem almenn flutningahöfn og hvaða áhrif það mundi síðan hafa á Vestmannaeyjar og Vestmannaeyjahöfn. Mér finnst eðlilegt að menn velti því svolítið fyrir sér því þar er auðvitað heilmikil fjárfesting í innviðum og spurning hvort skynsamlegt sé að gera þetta með þessum hætti.

Virðulegur forseti. Ég ætla alls ekki að leggjast sérstaklega gegn því máli sem hér er lagt fram. Mér finnst hins vegar í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur í samfélaginu og í samfélaginu í Vestmannaeyjum líka mikilvægt að velta upp þessum spurningum og að við köllum eftir frekari upplýsingum og svörum við þeim í samgöngunefnd þar sem málið kemur til umfjöllunar og að við munum síðan að sjálfsögðu taka þann tíma sem er nauðsynlegur í nefndinni til að fara í saumana á þessu máli, fá umsagnir, gefa hagsmunaaðilum og öðrum sem málið varðar tækifæri til að tjá sig fyrir nefndinni þannig að við getum skipst á skoðunum og að við munum síðan væntanlega taka það til afgreiðslu þaðan þegar það er bært til þess.

Þessi viðhorf vildi ég, frú forseti, láta koma fram við 1. umr. og vonast til að við eigum síðan ánægjuleg skoðanaskipti í meðförum þingsins á þessu frumvarpi.