135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[20:33]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Landeyjahöfn í Bakkafjöru. Hugmyndin að þessari hafnargerð er að bæta samgöngur til Vestmannaeyja, að auka öryggi í siglingum milli lands og Eyja og auka ferðatíðni milli lands og Eyja.

Ég hef haft efasemdir um þessa hafnargerð. Ég hef aðallega haft áhyggjur af því að þetta verði ekki sú samgöngubót sem menn ætla og vona að verði. Ég held að öryggið verði minna en áður og minna en það er í dag. Ég hef sagt að fyrirhugaðir hafnargarðar þyrftu að vera 300 metrum utar en fyrirhugað er í þessu frumvarpi. Ég byggi það á því að 300 metrum fyrir utan svokallað hafnarmynni er sandrif sem grynnkar verulega á og byrjar að brjóta á í tiltölulega góðu veðri og ég sem skipstjóri í 30 ár, og stýrimaður í tvö, þrjú ár á undan mínum skipstjórnarferli, þekki það. Það eru þrjár hafnir á Íslandi í dag þar sem við þurfum að kljást við brimlendingar eða sigla út og inn í brimi, þ.e. í Sandgerði, Grindavík og Hornafirði, Hornafjarðarósinn, eftir að hafnirnar á Stokkseyri og Eyrarbakka voru lagðar af.

Það fylgir því ákveðin hætta að sigla í gegnum brimgarð og ég hef ekki trú á því að Vestmanneyingar, skipstjórarnir sem hafa verið á Herjólfi og aðrir, láti sig hafa það að sigla í gegnum brimgarð. Það er allt of hættulegt og alls ekki hægt á bílaferju með konur og börn. Það er kannski hægt í einstaka tilfellum að fara á réttu róli á fiskiskipi með allan mannskapinn þjálfaðan, góða og vana menn hvað varðar öll öryggisatriði. En að fara inn í brimi með, eins og ég segi, konur og börn, er ekki ásættanlegt og ég hef ekki trú á að skipstjórar á þessari ferju, fólksferju, fari oft inn í gegnum þann brimgarð sem er þarna. Ég hef meira að segja séð hann sjálfur. Það var farið 27. eða 29. apríl í fyrra og voru teknar myndir í þeirri ferð sem hafa verið sýndar í tölvu, m.a. var einn maður uppi á stýrishúsinu á Lóðsinum úr Vestmannaeyjum og hann blotnaði upp í mitti þegar siglt var yfir þetta svæði sem á að verða og verður það svæði sem sigla þarf inn í höfnina.

Ég ætla að gefa mér að það takist að byggja þarna grjótgarða þannig að þeir haldi, þeir sem þekkja til þarna í fjörunni og annars staðar með suðurströndinni, þetta er fyrsta höfn sem gerð er á suðurströndinni í sandfjöru. Það er auðvitað alls ekki víst að það gangi. En ég ætla að þeir aðilar sem hanna þetta hafi vit á því og viti um hvað þeir eru að tala þegar þeir tala um að setja svokallaðar mottur undir grjótgarðana sem eiga að koma í veg fyrir að sandurinn grafi undan þeim eða þeir sökkvi hreinlega í sand. En það hefur gerst áður á Íslandi á þremur stöðum þar sem byggðir hafa verið grjótgarðar eða varnargarðar við hafnir eins og í Bolungarvík, Grímsey og Bakkafirði og garðarnir hurfu í brjáluðu veðri, í vondu veðri. Ég treysti því samt þó að menn séu að bera þetta saman. Reyndar eru þessir tæknimenn að bera saman, eftir því sem mér skilst, aðstæður í Norðursjó þar sem öldulag er allt öðruvísi en hér í Norðaustur-Atlantshafinu. Þar eru ekki jafnstórar og þykkar öldur. Þær eru öðruvísi þó að þar geti verið vont veður og leiðinlegar öldur, en það þekkjum við sem höfum siglt úr Norðursjó og í gegnum Pentil og út í Norðaustur-Atlantshafið að það er allt annað sjólag og með allt öðrum hætti.

Kostnaður við þessa grjótgarða og höfn er ekki ætlaður nema rúmir 3 milljarðar. Ég hef stundum sagt að ef gera á þarna alvöruhöfn og fara með grjótgarðana út fyrir rifið sem er 300 metrum fyrir utan fyrirhugaða hafnargarða, þá séum við að tala um upphæð sem nálgast 16–18 milljarða. Þetta kemur fram í skýrslu Gísla Viggóssonar hjá Siglingamálastofnun og ég óttast að þarna verði ekki góð höfn og nothæf fyrr en búið er að setja þá upphæð í þessa hafnargerð.

Þegar talað var fyrir þessu máli í Vestmannaeyjum var talað um að Vestmanneyingar ætluðu að eiga 60% í þessari höfn og Rangárþing eystra 40%. En eitthvert ósamkomulag hefur verið á milli þessara sveitarfélaga þannig að nú er talað um það að þetta verði hreinlega ríkishöfn sem ég skil ekki að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skuli vera á móti því að vinstri grænir hafa nú talað fyrir því að ríkið ætti að eiga sem flest og mest. Þetta stingur samt í stúf við annað, það eru engar ríkishafnir í dag. Það voru þrjár landshafnir, þ.e. á Rifi, Keflavík og Þorlákshöfn, og ríkið afhenti þeim sveitarfélögum sem þær voru í þær skuldlausar að mig minnir. Það má því segja að þetta sé dálítið spor aftur á bak og kannski ekki í takt við það sem er í dag. En það er auðvitað ekki annað hægt en að óska Rangárþingi eystra til hamingju með að fá ókeypis höfn í sveitarfélagið og það á ábyggilega eftir að nýtast því vel en kannski að sumu leyti í samkeppni við Vestmannaeyjahöfn.

Ég hef trú á því að ef þeir miklu gámaflutningar sem eru með fisk í dag t.d. frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar og keyrðir eru þaðan á trukkum í skip í Reykjavík verða áfram er hætt við því að skip sem koma til að setja ferskan fisk á erlendan markað, svokallaðan gámafisk, muni hreinlega nota sér höfnina í Bakkafjöru eða þessa Landeyjahöfn og þar af leiðandi væri Vestmannaeyjahöfn farin að tapa hafnargjöldum út af samkeppni við þessa nýju höfn. Þetta er auðvitað hlutur sem er kannski ekki hægt að segja alveg til um hvernig verður en ekki ólíklegt að menn nýti sér þetta og Rangárþing eystra mun auðvitað nýta sér þann möguleika sem höfn í sveitarfélaginu gefur. Ég reikna ekki með öðru en að það muni nýta það í botn eins og maður segir.

Mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra um samgöngur frá Bakka til Reykjavíkur. Talað er um að sigla þarna, ef af þessu verður, og þegar best er og blíðast verður væntanlega hægt að sigla þarna á milli sex sinnum á dag, jafnvel átta sinnum. En þá er ekki nóg að flytja fólk frá Vestmannaeyjum og upp í Bakkafjöru, það að þarf að koma því lengra. Það þarf að koma því inn í samgöngukerfið, hvort sem fólk ætlar að fara til Reykjavíkur eða jafnvel austur á land. Það eru ýmsar svona spurningar í þessu sem mér finnst vanta svör við. Ég sé samt ekki að þetta verði sú lausn í samgöngum sem Vestmannaeyingar væntu eða óskuðu sér en auðvitað eru þeir eins og allir aðrir að reyna og vona að þeir fái bættar samgöngur, enda veitir þeim ekki af. Samgöngur við Vestmannaeyjar eru mjög óöruggar bæði í flugi og siglingum og hafa tekið of langan tíma.

Varðandi fyrrnefnda hafnargerð hefði náttúrlega verið ósköp eðlilegt af hálfu bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum að leyfa bæjarbúum að kjósa um samgöngubætur, hvort þeir vildu Bakkafjöru, jafnvel hefði verið hægt að nefna jarðgöng, Bakkafjörusiglingar eða nýjan og stærri Herjólf sem gengi 25–30 mílur til Þorlákshafnar, nýtt skip sem hefði kannski kostað 4–5 milljarða. Það hefði verið lausn fyrir íbúana að komast frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar á kannski einum og hálfum klukkutíma, á stóru góðu skipi sem gengi meira, 10 eða 15 mílum meira en gamli Herjólfur gerir í dag. Þá mætti segja að vandi þeirra hefði lagast verulega.

Safnað var undirskriftum frá fólki í Vestmannaeyjum á einni viku þar sem um helmingur bæjarbúa í Vestmannaeyjum lagði til að þetta yrði endurskoðað og hætt við þessa hafnargerð. Ég held að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum og samgönguráðherra gætu, ef þeir vildu, frestað þessu á meðan þessi mál væru skoðuð betur.

Ég segi enn og aftur, þetta var og er hugmynd að bættum samgöngum til Eyja til að auka öryggi, þ.e. að menn geti reiknað með því að skipið gangi á milli. Í því felst öryggið sem ég er að tala um, ekki bara öryggi á siglingaleiðinni hvað varðar slysahættu heldur t.d. að fiskverkendur í Vestmannaeyjum sem kaupa fisk uppi á landi viti að hann getur komið til Eyja og það sé örugg sigling á milli Eyja og lands þannig að þeir fái hráefni til að vinna og lendi ekki í því að gámarnir bíði uppi á landi í svo og svo langan tíma eftir að fært verði í Bakkafjöru en ég tel að það verði miklu meiri óvissa með ferðir á milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja en siglingar í Þorlákshöfn.

Það má líka minnast á að það er mikið sandfok í fjörunni þarna af landi sem mun fara ofan í höfnina og síðast og ekki síst verður mikill sandburður neðan sjávar inn í höfnina. Siglingamálastofnun getur auðvitað ekki áttað sig á því hve mikið magn verður á ferðinni, í skýrslu hennar hefur verið talað um eitthvað 25 þús. rúmmetra sem er auðvitað algjört skot út í loftið. En menn vita samt af því, enda vita þeir sem best þekkja sandinn þarna að hann er allur á fleygiferð.

Þetta er auðvitað einn partur af því vandamáli sem það er að gera höfn í fjörunni þarna og eins og sagði áðan tel ég að það verði erfitt að gera það svo vel sé nema að setja miklu meiri peninga í það verk en reiknað er með. Rúmir 3 milljarðar í þessa hafnargerð eru einfaldlega allt of lítil upphæð og munu ekki duga til að gera almennilega höfn í Bakkafjöru.