135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:09]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Grétari Mar Jónssyni hvað hann gerir mér hátt undir höfði, hann spyr mig sem ég væri samgönguráðherra. Ég verð að hryggja hann með því að ég hef ekki umboð til að svara fyrir hönd samgönguráðherra, við treystum þá á velvilja hans að muna þessar spurningar þangað til að honum kemur á eftir.

Undir hitt get ég algerlega tekið með hv. þingmanni að ég tel (Gripið fram í.) að klára hefði átt þær rannsóknir sem farið var af stað með vegna jarðgangagerðar. Ég tel að menn hafi verið of fljótir á sér að kasta þeim möguleika út af borðinu. Þegar við tölum um þessar samgönguleiðir, hvort sem það eru ferjusiglingar milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja eða milli Bakkafjöru og Vestmannaeyja, þá er ekki bara mikill stofnkostnaður í þeim heldur er rekstrarkostnaður líka verulegur. Hann hefur verið, eins og þetta hefur gengið fyrir sig, um milljarður á ári. Þannig að það þarf mikla peninga. Það er alveg ljóst hvernig sem við snúum okkur að það er dýrt að halda uppi nútímalegum samgöngum við stað eins og Vestmannaeyjar. Og töluverðu er til þess kostandi að hægt sé að gera það með sambærilegum hætti og við aðrar byggðir, þ.e. með beinni vegtengingu.

En ég held að að öðru leyti greini okkur hv. þm. Grétar Mar Jónsson ekki svo mjög á um þessi mál, að á þessu eru tvær hliðar. Ég held aftur á móti að úr því sem komið er, og miðað við þá stöðu sem við erum í núna, sé ekki ráðlegt að fleygja þeim hugmyndum sem liggja fyrir um Bakkafjöruhöfn út af borðinu til þess að fara enn einu sinni að setja (Forseti hringir.) málið í núllstöðu.