135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:21]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna orða hv. þingmanns og forseta um það að þingmenn Suðurkjördæmis þvælist vonandi ekki fyrir þessu máli. Ég vona að ég hafi talað nógu skýrt áðan.

Ég tel einmitt að úr því sem komið er eigum við enga aðra færa leið í þessari stöðu en að halda ótrauð áfram með þessa framkvæmd og ég hef óskað samgönguráðherra til hamingju með að hafa lagt þetta frumvarp fram.

Ég tel engu að síður að hægt hefði verið að standa betur að ýmsum undirbúningsþáttum. Ég tel að það að hefði mátt rannsaka til hlítar jarðgangakostinn og ég tel að líka hefði mátt grípa fyrr inn í varðandi samgöngubætur til Vestmannaeyinga en geri mér alveg grein fyrir því að auðvitað togast alltaf á þörfin og svo það fjármagn sem til ráðstöfunar er til samgöngubóta.

Það er rétt sem hér kom fram hjá hæstv. forseta Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra að vissulega voru lítils háttar samgöngubætur til Vestmannaeyja á síðasta kjörtímabili en þá hafði líka verið í rauninni stöðnun í mjög langan tíma þar á undan.

Varðandi þá ósk að þingmenn Suðurkjördæmis flækist ekki fyrir hef ég í rauninni meiri áhyggjur af því að hér hafa stjórnarþingmenn komið upp og talað mjög á móti þessari framkvæmd og talað á móti því að Alþingi afgreiði málið frá sér. Ég held að þess vegna sé enginn vafi á því að í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum góðum framfaramálum skipum við hæstv. forseti Alþingis og sá sem hér talar sömu sveit.