135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:47]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér þykir rétt að fagna þessu fram komna frumvarpi um breytingu á lögum um staðfesta samvist sem hér er til umræðu og tek undir þær breytingar sem þar eru boðaðar. Ég tel reyndar að þetta séu löngu tímabærar breytingar og að það hafi dregist um of að koma þeim til framkvæmda. Sjálfsagt mætti nefna fjölmargar orsakir fyrir því hvers vegna þetta hefur ekki komið fyrr til afgreiðslu á þingi. En það er komið hérna og ég fagna því.

Ég tek hins vegar undir það sem komið hefur fram hjá Samtökunum 78 þar sem þau hafa bent á þá þversögn sem þau segja að ef lögin verða samþykkt hér á þingi þá sé engin þörf lengur á sérlöggjöf um staðfesta samvist. Næsta skref hlyti þá að vera að sameina hjúskaparlög samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í eina löggjöf. Ég held að það hljóti að vera næsta skref á Alþingi að stíga skrefið til fulls hvað það varðar og eyða þar með öllum sýnilegum mismun hvað lagalega þætti varðar.

Hitt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi áðan um uppeldishlutverk og deilur innan kirkjunnar og víðar reyndar um hæfni samkynhneigðra til að ala upp börn þá eiga þær deilur sér langa sögu bæði hér heima og erlendis á meðal fræðimanna en ef eitthvað er hefur það fyrir löngu verið viðurkennt að á þessu er enginn munur. Þetta er persónulegur munur rétt eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan. En þetta kemur kannski þessu máli við óbeint hvað það varðar því þetta er í raun það eina sem stendur í vegi (Forseti hringir.) fyrir því að sameina löggjöfina um gagnkynhneigða og samkynhneigða undir einn lagabálk.