135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:50]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að hluta til sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að vel fari á því að breytingar hvað þetta varði eigi sér smám saman stað en fyrr má vera finnst mér að það hafi verið dálítill hægagangur í þessum málum í gegnum tíðina þótt vissulega hafi orðið hraðaaukning á því að undanförnu ef það má orða það þannig og að rétt sé að gefa tíma á það. Ég vara samt við því að það dragist um of. En ég fagna samt orðum hæstv. forsætisráðherra um að rétt sé kannski að í framhaldi af þessu, verði lög þessi samþykkt hérna, að hefja þá þegar umræðu og vinnu að því að sameina réttindi og löggjöf samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í ein hjúskaparlög. Ég vona að það verði.