135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:52]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna frumvarpinu sem hér er komið fram. Það er alveg örugglega hægt að kvitta upp á að þetta er skref í rétta átt þó að sú er hér stendur hefði viljað ganga lengra. Miðað við stöðuna í öðrum ríkjum má segja að réttindi samkynhneigðra séu orðin betri á Íslandi heldur en víðast hvar annars staðar. Þó við getum alveg bent á lönd þar sem staðan er enn þá betri þá erum við þó mundi ég segja í forustu landa varðandi réttindi samkynhneigðra.

Það er alveg ljóst að það hafa verið miklir fordómar í garð samkynhneigðra í langan tíma og það hefur orðið alveg geysilega mikilvæg og jákvæð viðhorfsbreyting í þeirra garð á allra síðustu árum sem ber mjög að fagna. Það er bara þannig, virðulegi forseti, að samkynhneigðir eru hluti af okkar samfélagi og ég vil bara segja að ég fagna því. Þetta er skemmtilegt fólk og bara eins og gagnkynhneigðir, alls kyns fólk sem þar er á ferðinni og alls ekki hópur sem á að misvirða á nokkurn hátt.

Ég hef átt því láni að fagna að kynnast aðeins þessum hópi sem er í Samtökunum 78 og það var kannski fyrir hálfgerða slysni á sínum tíma. Ég var beðin um að aðstoða í Gay Pride göngunni að selja vörur. Allir stjórnmálaflokkar voru beðnir um það og Framsóknarflokkurinn tók því bara vel. Við seldum nokkuð vel í göngunni. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni.

Framsóknarmenn hafa lagt mikla áherslu á að allri mismunun á grundvelli kynhneigðar verði útrýmt og ég vil vitna aðeins í ályktun sem er reyndar orðin úrelt núna af því að það er búið að gera ýmislegt í málaflokknum. En á sínum tíma samþykktum við, með leyfi virðulegs forseta:

„Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að einstaklingum sé ekki mismunað eftir kynferði, kynhneigð, þjóðerni eða litarhætti.

Allir eiga að njóta sömu möguleika við ættleiðingu barna og leggur Framsóknarflokkurinn til að réttindi samkynhneigðra verði jöfnuð við réttindi gagnkynhneigðra. Framsóknarflokkurinn telur jafnframt brýnt að annarri mismunun á grundvelli kynhneigðar verði útrýmt.“

Nú er búið að jafna réttindi varðandi ættleiðingu barna. Það var harðdræg leið. Það gekk ekkert fyrir sig einn, tveir og þrír og það voru skiptar skoðanir um það. En þingið tók af skarið og því ber að fagna.

Grundvallarstefnuskrá Framsóknarflokksins er okkar leiðarljós. Þar kemur fram, með leyfi virðulegs forseta:

„Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum.“

Og, með leyfi forseta:

„Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.“

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn er umburðarlyndur framfaraflokkur í stefnu sinni og hefur mótað sér skýra stefnu í málefnum samkynhneigðra.

Ég vil aðeins gera að umtalsefni innihald þessa frumvarps sérstaklega. Það eru einungis tvær greinar og önnur er gildisgreinin þannig að þetta er ekki umfangsmikið frumvarp en mikilvægt samt. Aðalinnihaldið er í b-lið 1. gr. og þar segir að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, er heimilt að staðfesta samvist. Það er jákvætt. Hins vegar vil ég taka það fram, virðulegur forseti, að það liggur annað frumvarp fyrir þinginu. Það er aðeins búið að minnast á það hér. Það er frumvarp til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum sem varða réttindi samkynhneigðra. Það frumvarp er í bandormsformi þar sem verið er að fara inn í hinar og þessar greinar í lögum. Megininnihaldið er að þar er verið að leggja til að hjúskaparlögin gildi fyrir alla, bæði fyrir hjúskap karls og konu en líka fyrir hjúskap tveggja einstaklinga af sama kyni. Þar er verið að leggja til að lögin um staðfesta samvist verði felld á brott. Niðurstaðan yrði þá að það mundu gilda ein hjúskaparlög í landinu fyrir alla. Það tel ég vera mikið réttlætismál. Fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps er Kolbrún Halldórsdóttir sem hefur verið ötull talsmaður réttinda samkynhneigðra í langan tíma. Aðrir flutningsmenn eru Atli Gíslason, Katrín Jakobsdóttir, Ögmundur Jónasson, Bjarni Harðarson, Siv Friðleifsdóttir og Grétar Mar Jónsson.

Virðulegi forseti. Þarna eru sem sagt þingmenn úr öllum flokkum, reyndar hvorki úr Sjálfstæðisflokki né Samfylkingu, en ég veit þó til þess að þingmenn úr báðum þessum flokkum, bæði Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, eru sammála frumvarpinu en vilja kannski gefa þessu lengri tíma og taka þetta skref fyrir skref. Það ber líka að virða það og það kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að allt hefði sinn tíma og það ber að virða. Eigi að síður hef ég kosið að gerast talsmaður fyrir þessu máli af því að ég tel að það verði engar breytingar ef menn ætli bara að bíða, það þurfi virkilega að tala fyrir málum til að ná þeim fram.

Um það mál sem ég er að fjalla um hér og er nátengt því sem er til umræðu í þinginu núna — það gengur bara lengra — hafa komið umsagnir og ég tel afar mikilvægt að þegar mál það sem við erum núna að fjalla um kemur inn til nefndarinnar — ég sé að í hliðarsal er formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Birgir Ármannsson — ég tel að það séu eðlileg vinnubrögð í allsherjarnefnd að við ræðum þá þessi mál saman. Þau fjalla eiginlega um það sama. Það er bara spurning hvað menn vilja ganga langt.

Í því máli er dregið fram að það er mismunun að hafa sitt hvora löggjöfina fyrir samkynhneigða og fyrir gagnkynhneigða og það eru eiginlega engin rök, alla vega að mínu mati, fyrir að hafa ekki sömu lögin. Það er fjallað um það í greinargerðinni að Svíar eru að skoða þessi mál hjá sér og þeir nálgast málin svolítið skemmtilega. Þeir fara meðal annars yfir öll rök gegn því að leyfa einstaklingum af sama kyni að ganga í hjónaband. Hver eru rökin gegn því? Eru gagnkynhneigðir að missa einhver réttindi við það ef samkynhneigðir fá að ganga í hjónaband alveg á sama hátt og gagnkynhneigðir? Maður sér ekki hvaða tap það er fyrir gagnkynhneigða, en það er gróði fyrir samkynhneigða. Þetta er hluti af þeirra réttindabaráttu. Svíarnir eru að fara yfir þetta skipulega. Þeir fjalla líka um það í skýrslu sem þeir hafa gefið út um þessi mál að það sé ekki skilyrði fyrir því að einstaklingar teljist hjón að þeir eigi saman börn. Það er ekki skilyrði. Það stendur hvergi og er ekki. En það eru samt svolítið sterkar raddir úr kirkjunni sem halda sig við það. Þó eru aðrar raddir úr kirkjunni sem eru á því að það eigi að ganga alla leið, ganga lengra en frumvarpið sem við erum að fjalla um hér geri, þ.e. að ganga alla leið þannig að samkynhneigðir geti líka gengið í hjónaband á sama hátt og gagnkynhneigðir þannig að kirkjan er ekki öll sammála í þessu.

Í sænsku skýrslunni er líka reynt að skoða málin frá sjónarhóli barnsins. Það er mikilvægt og þeir segja þar að mikilvægara virðist að samband foreldra og barns sé gott og tryggt en að foreldrar þess séu karl og kona. Ef eitthvað er til í þeirri fullyrðingu að það veiti barninu sérstaka öryggiskennd ef uppalendur þess eru hjón er erfitt að réttlæta þá stefnu að þeir megi ekki giftast því þeir eru af sama kyni. Sú röksemdafærsla að hjónaband verði einungis að gilda um karl og konu af því að það sé hin náttúrulega og líffræðilega aðferð við að eignast börn stenst ekki þegar að er gáð. Samfélagið er allt öðruvísi í dag og við erum búin að viðurkenna að samkynhneigðir geti alið upp börn og eru góðir foreldrar. Því eru þessi rök ekki lengur til staðar til að útiloka samkynhneigða í að ganga í hefðbundið hjónaband. Rökin fyrir breytingu á hjúskaparlögum virðast miklu sterkari heldur en rökin á móti þannig að sömu lög ættu að gilda gagnvart samkynhneigðum eins og gagnkynhneigðum og við ættum því að láta orðin karl og kona falla út úr hjúskaparlögunum og segja í staðinn tveggja einstaklinga en ekki sérstaklega kyngreina karl og konu.

Það er alveg ljóst að Samtökin 78 hafa fagnað mjög því frumvarpi sem er í allsherjarnefnd um þessar mundir og lýsa yfir eindregnum stuðningi við það. Þau draga fram í sinni umsögn að eina hindrunin eða eina mismununin sem eftir er núna sé að réttarstaðan er í tveimur lagabálkum í dag gagnvart hjúskaparstofnun en ætti að vera í einum.

Talsmenn kirkjunnar hafa fjallað talsvert um að hjónabandið verði að vera milli karls og konu af því að það sé líffræðilega grunneiningin sem getur af sér barn og að það séu hagsmunir barnsins að karl og kona ali það upp. Á sama tíma færir kirkjan líka rök fyrir því að samkynhneigðir geti verið góðir uppalendur þannig að þetta er svolítið mótsagnakennt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala miklu lengur. Ég fagna málinu og styð það eindregið en ég vil svo gjarnan að við hefðum gengið lengra. Ég vil nota tækifærið hér til að spyrja, af því að ég átta mig á því að forsætisráðherra og stjórnarflokkarnir sömdu um það á Þingvöllum — og þetta er í stjórnarsáttmálanum — að fara þá leið sem hér um ræðir en ekki ganga lengra að þessu sinni, og að freista þess að reyna að fá kannski skýrari svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Því langar mig gjarnan að spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra telji nokkrar líkur á því að við stígum skrefið til fulls á þessu kjörtímabili, þ.e. að við heimilum samkynhneigðum að ganga í hjónaband, heimilum kirkjunni, prestum og forstöðumönnum trúfélaga að vígja — ég nota orðið vígja — samkynhneigða í hjónaband ef þeir vilja það og að þeir hafi frelsi til þess. Þeir hafa ekki frelsi til þess í dag og ekki heldur verði þetta frumvarp að lögum. Þá hafa þeir ekki frelsi til að vígja samkynhneigða í hjónaband. Hefur forsætisráðherra trú á því að við stígum það skref á þessu kjörtímabili? Líklega er svarið nei, fyrst það skref er ekki tekið núna. Ef svo er ekki, telur hæstv. forsætisráðherra líklegt að við gætum hugsanlega tekið það á næsta kjörtímabili og er forsætisráðherra tilbúinn til að segja það hér með nokkuð skýrum hætti að hæstv. ráðherra gæti hugsað sér að beita sér í því máli þannig að við gætum hugsanlega í byrjun næsta kjörtímabils stigið það skref? Þá væru stjórnmálaflokkanir væntanlega með það á sinni kosningastefnuskrá fyrir næstu kosningar að klára þetta mál af því að mörg önnur ríki hafa tekið þetta skref og við erum alls ekki fyrst. Þau ríki eru talin upp í umsögn Samtakanna 78. Það eru fimm ríki sem hafa ein hjúskaparlög auk tveggja fylkja í Bandaríkjunum. Þetta eru Belgía, Holland, Kanada, Suður-Afríka og Spánn. Í Bandaríkjunum eru það tvö ríki, Massachusetts og Iowa. Þar segir að í hjúskaparlögum Kanada og Spánar sé enginn greinarmunur gerður á réttindum samkynhneigðra para en í hjúskaparlögum hinna ríkjanna er enn gerður greinarmunur hvað varðar búsetu og ríkisfang. Svo segir að þing Svíþjóðar hafi sams konar breytingu á dagskrá þannig að við værum alls ekki fyrsta ríkið í heiminum en við værum með þeim fyrstu samt.

Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn til að gefa út einhvers konar fyrirheit í þessa átt? Ég tel svo mikilvægt að stjórnmálamenn leiði þessa umræðu. Kirkjan stóð ekki sameinuð um ættleiðinguna og ekki um tæknifrjóvgunina eins og ég skil það og sú nefnd sem undirbjó þær lagabreytingar. En við stjórnmálamennirnir tókum af skarið. Stundum þurfum við að gera það með allri virðingu fyrir kirkjunni. Ég vil taka það fram að ég tel mig vera trúaða manneskju. Ég er ekki einu sinni gift sjálf (Forseti hringir.) þannig að ekki er ég að berjast fyrir eigin réttindum að þessu leyti eða neitt slíkt. Ég hef valið annað sambúðarform. Ég tel samt að samkynhneigðir (Forseti hringir.) eigi að geta gengið í hjónaband eins og gagnkynhneigðir.