135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[22:11]
Hlusta

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna frumvarpi um breytingu á lögum um staðfesta samvist sem hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, leggur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga er hafa vígsluheimild samkvæmt hjúskaparlögum verði heimilt að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni kjósi þeir það.

Hér á landi hefur náðst mikill árangur í mannréttindabaráttu samkynhneigðra og síðast árið 2006 voru samþykktar fjölmargar breytingar á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra, svo sem er varða sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun og fleira.

Með frumvarpinu sem lagt er fram í dag er gert ráð fyrir að skrefið sé stigið til fulls, þ.e. að samkynhneigðir einstaklingar hafi sama rétt fyrir lögum og gagnkynhneigðir. Með samþykkt frumvarpsins verðum við vonandi öðrum þjóðum til fyrirmyndar og eftirbreytni. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á heiður skilið fyrir að útrýma misrétti gagnvart samkynhneigðum í lögum og tryggja að mannréttindi samkynhneigðra séu til jafns við gagnkynhneigða.