135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

stjórnsýslulög.

536. mál
[22:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993. Lagafrumvarp þetta er samið á grundvelli tillagna nefndar undir forsæti dr. Páls Hreinssonar, núverandi hæstaréttardómara, um viðurlög við efnahagsbrotum sem fram koma í skýrslu hennar frá 12. október 2006 og aðgengileg er á heimasíðu forsætisráðuneytisins.

Í skipunarbréfi nefndarinnar var henni falið að fjalla um hlutverk eftirlitsaðila og verkaskiptingu þeirra á milli, þar á meðal skil á milli þeirra sem heimilt er að beita stjórnvaldssektum og lögreglu- og ákæruvalds. Markmið nefndarinnar skyldi vera að eyða óvissu um verkaskiptingu og stuðla að virkum rannsóknarúrræðum til að uppræta efnahagsbrot.

Tillögum nefndarinnar má í meginatriðum skipta í fernt. Snúa þær í fyrsta lagi almennt að stjórnsýsluviðurlögum og refsingum, í öðru lagi að viðurlögum við brotum á fjármálamarkaði, í þriðja lagi að viðurlögum við brotum á samkeppnislögum og loks að setningu lagaákvæða til að tryggja réttaröryggi þeirra sem eru aðilar að stjórnsýslumálum sem lokið getur með álagningu stjórnsýsluviðurlaga eða kæru til lögreglu.

Frumvarpinu er ætlað að hrinda í framkvæmd fjórða þætti tillagna nefndarinnar. Á 133. löggjafarþingi voru samþykktar breytingar á samkeppnislögum, sbr. lög nr. 52/2007, og á lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 55/2007, sem lutu að öðrum þáttum tillagna nefndarinnar.

Eitt af helstu markmiðum frumvarpsins er að færa íslensk lög til samræmis við þær meginreglur sem leiddar verða af 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðinu og tryggja réttindi manna sem sæta stjórnsýsluviðurlögum. Er hér einkum litið til tveggja atriða; annars vegar miða ákvæði frumvarpsins að því að tryggja rétt einstaklings til að fella ekki á sig sök, eða svokallaðan þagnarrétt, við rannsókn máls á stjórnsýslustigi og hins vegar miða þau að því að tryggja rétt aðila að stjórnsýslumáli til aðgangs að dómstólum til þess að fá endurskoðaða ákvörðun stjórnvalds um álagningu stjórnsýsluviðurlaga.

Samkvæmt frumvarpinu er nýjum kafla bætt við stjórnsýslulög, nr. 37/1997, er fjalli um svokölluð stjórnsýsluviðurlög, þ.e. stjórnvaldssektir, álag, upptöku ólögmæts ávinnings, sviptingu réttinda, afturköllun leyfis og aðrar eðlisskyldar ákvarðanir. Í þeim kafla verði almenn ákvæði um þær meginreglur sem gilda um beitingu stjórnsýsluviðurlaga. Er þá jafnframt gert ráð fyrir því í 3. gr. frumvarpsins að felld verði brott samhljóða ákvæði þar sem þau eru komin inn í sérlög.

Með lögfestingu frumvarpsins má ætla að náðst hafi fram þær lagaumbætur sem lagðar voru til í skýrslu nefndar um viðurlög við efnahagsbrotum og miða að því að auka skilvirkni við meðferð slíkra mála að teknu tilliti til réttinda þeirra einstaklinga og lögaðila sem eiga í hlut.

Ég ætla ekki að fjölyrða um efni frumvarpsins en vísa til hinna rækilegu athugasemda sem fylgja því en frumvarpið unnu fyrir forsætisráðuneytið þau dr. Páll Hreinsson, núverandi hæstaréttardómari, og prófessor Björg Thorarensen.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.