135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

verðbólguþróun.

[15:04]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Sú spurning sem ég ætla að bera upp við hæstv. forsætisráðherra er auðvitað þyngri en tárum taki. Því miður gengur margt illa í íslensku samfélagi en það verður að segja hæstv. forsætisráðherra til virðingar að hann situr hér og kannski er þetta að verða eins og í Njálu að hann stritar við að sitja.

Það kom fram í fréttum dagsins að verðbólgan er komin í 12% og það kom fram í fréttum dagsins að engin ríkisstjórn hefur í 20 ár verið jafnmáttvana frammi fyrir efnahagsvandanum sem blasir við. Verkalýðshreyfingin fordæmir í rauninni aðgerðaleysið og atvinnulífið talar um evru sem lausn þó að allir viti að evra verður ekki einhliða tekin upp á Íslandi. Allt sem við framsóknarmenn höfum sagt mánuðum saman er að koma fram. Það er alvarlegt efnahagsástand á Íslandi og hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnin ber þar meiri ábyrgð en nokkur annar. Það hefur verið horft blindum augum til Seðlabankans eins og hann hafi verið kjörinn til að stjórna Íslandi. Seðlabankinn hefur beitt stýrivaxtahækkunum og er með hæstu stýrivexti í veröldinni í dag á íslenskum launþegum, skuldugum heimilum og fyrirtækjum. Það er ekkert úrræði miðað við vandann. Við stöndum frammi fyrir efnahagslegum vanda sem kemur að utan, hækkunum á nauðsynjum, broti af heimskreppu og vandræðum innan lands. Þessi vandræði verða ekki leyst í Seðlabankanum. Það er forustumaður ríkisstjórnarinnar, það er ríkisstjórnin sjálf sem verður að bretta upp ermar við þessar alvarlegu aðstæður. Satt að segja hefur þetta gengið svona mánuðum saman (Forseti hringir.) og nú er komið í ljós að ekkert af því sem forsætisráðherra og ríkisstjórnin sagði hefur gengið eftir. Verðbólgan vex, vandræðin vaxa og ég tel að ríkisstjórnin eigi að segja af sér.