135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

uppsagnir á Landspítalanum.

[15:11]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Blikur hafa verið á lofti í heilbrigðisþjónustu landsmanna allt frá því að núverandi ríkisstjórn tók við. Við höfum í vetur orðið vitni að hverri atlögunni á fætur annarri ýmist í formi niðurskurðar á nauðsynlegri þjónustu á heilbrigðisstofnunum landsmanna eða með tilburðum sem uppi hafa verið í þá átt að búta þá þjónustu niður og henda henni í smápörtum út á markaðinn.

Þau tækifæri sem hæstv. forsætisráðherra lýsti svo vel í Valhöll síðastliðið haust sem nú gæfust til að breyta heilbrigðisþjónustunni meira í ætt við stefnu Sjálfstæðisflokksins en áður hefur verið gert hafa sannarlega ekki verið látin ónotuð og við höfum þess vegna rætt heilbrigðisþjónustuna í nær hverri einustu viku í allan vetur. En, herra forseti, oft var þörf en nú er nauðsyn. Allt virðist benda til þess að neyðarástand sé að skapast á Landspítalanum og það innan þriggja sólarhringa vegna uppsagna u.þ.b. 100 skurðhjúkrunarfræðinga og 50 geislafræðinga sem gætu komið til framkvæmda næstkomandi fimmtudag. Afleiðingarnar geta orðið hörmulegar og öryggi sjúklinga er stefnt í stórfelldan voða. Það ótrúlega er að lítið virðist vera að gerast og landsmenn heyra fréttir dag eftir dag um að það sé engin lausn í sjónmáli. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsætisráðherra því að ekki vil ég láta hæstv. fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra vísa hvor á annan: Hvað er ríkisstjórnin að gera til að afstýra því ástandi sem við blasir innan þriggja sólarhringa?