135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að ESB.

[15:17]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ef mér leyfist að svara fyrri spurningunni fyrst þá hefur engin afstaða verið tekin til þessa atriðis á vettvangi ríkisstjórnarinnar og ég geri ekki ráð fyrir því að farið verði í breytingar á stjórnarskránni fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Þannig að þessi spurning er ekki tímabær að svo stöddu.

Hvað varðar Evrópusambandið þá er það ljóst að stjórnarflokkarnir tveir hafa ólíka afstöðu í því máli. Þeir sömdu hvorugur um það að breyta afstöðu sinni þegar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar var gerður. Það segir ekkert um það í stjórnarsáttmálanum að það eigi að ganga í Evrópusambandið. Það á að setja á laggirnar nefnd sem nú er að hefja störf til að fylgjast með þróuninni þar, svokallaða vaktstöð sem mun vakta ástandið.

Það stendur í sjálfu sér heldur ekki að ekki eigi að ganga í Evrópusambandið. En ef það ætti að gera það, þ.e. að ganga í Evrópusambandið, þyrfti að semja um það upp á nýtt og þá þyrfti annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, að skipta um afstöðu frá því sem hann hefur í dag. Það er ekki meiningin.