135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

hvíldartímaákvæði bílstjóra og verð á dísilolíu.

[15:30]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans varðandi hvíldartímann og ég reikna með því, miðað við þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið, að það sé í góðum farvegi. Það er hins vegar eitt sem ég vék að áðan sem hann vék sér undan að svara, það er spurningin hvernig menn sjá fram á að breyta eldsneytisverði þannig að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða og beitt sé ákveðnum aðgerðum til lækkunar á vöruverði. Þá er ég fyrst og fremst að víkja að því sem ég spurði líka um, þ.e. dísilolíunni, hvort það sé meiningin að við í hópi nokkurra Evrópuþjóða verðum með hærra verð á dísilolíu en bensíni. Ég spyr hvort áform séu uppi hjá ríkisstjórninni um að lækka verð á dísilolíu umfram verð á bensíni til að greiða fyrir landflutningum, eðlilegum samgöngum til lækkunar vöruverðs.