135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[15:44]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með síðari breytingum. Markmið þessa frumvarps er að leggja niður Bjargráðasjóð og skipta hreinum eignum sjóðsins milli eigenda hans sem eru ríkissjóður, Bændasamtök Íslands og sveitarfélögin.

Þetta frumvarp byggir í meginatriðum á samþykkt stjórnar Bjargráðasjóðs frá 12. nóvember 2007. Í þeirri samþykkt var lagt til að unnið yrði að tillögum um breytingar á starfsemi sjóðsins og með þeirri vinnu yrði tekið tillit til óska um að fjármögnun og rekstur sjóðsins verði færður frá sveitarfélögunum. Í samræmi við þessa samþykkt stjórnarinnar voru unnar tillögur um með hvaða hætti eignum og skuldbindingum sjóðsins verði skipt upp milli eigenda, þ.e. hvernig fyrirkomulagið eigi að vera á tryggingamálum landbúnaðarins er síðan vísað til umræðu á vettvangi Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Bjargráðasjóður Íslands á sér langa sögu. Því er hér vissulega um nokkur tímamót að ræða nú þegar lagt er til að hann verði lagður niður. Sjóðurinn var stofnaður með lögum nr. 45 árið 1913 eða fyrir 95 árum í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra hallæri. Á þeim tíma gat búfjárfellir og önnur áföll í landbúnaði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sveitarfélaganna og getur raunar enn haft. Leiðir til að mæta slíkum áföllum eru hins vegar mun fleiri í dag en voru þá. Það er einmitt komin ein rík ástæða til þess og með árunum hefur tilgangur sjóðsins minnkað mjög. Hlutverk sjóðsins hefur þannig tekið verulegum breytingum frá stofnun hans enda hafa sveitarfélögin og aðrir opinberir aðilar ríka skyldi til að mæta áföllum sem dunið gætu á landsmönnum. Má sem dæmi nefna að sett hafa verið lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, Viðlagatyggingu Íslands, Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og Atvinnuleysistryggingasjóð. Fjölmörg úrræði sem ekki voru til staðar við setningu upphaflegra laga um Bjargráðasjóð eru því fyrir hendi í dag til að bæta áföll sem einstök landsvæði kunna að verða fyrir, m.a. í landbúnaði. Möguleikar til töku margvíslegra trygginga á frjálsum markaði hafa einnig stóraukist. Það hafa atvinnurekendur og einstaklingar nýtt sér í ríkum mæli.

Önnur ástæða þess að Bjargráðasjóður hefur misst tilgang sinn og tilverugrundvöll felst í þróun í landbúnaði. Ákvarðanir einstakra búgreinafélaga hafa leitt til þess að iðgjöld til Bjargráðasjóðs hafa farið lækkandi og tilteknar búgreinar hafa kosið að hætta aðild að sjóðnum. Mestu munar nú að það hefur verið eindregin afstaða félagsmanna í Landssambandi kúabænda að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Aðrar búgreinar, t.d. hrossarækt, eiga aðild að sjóðnum en greiðslur til Bjargráðasjóðs virðast ekki vera í samræmi við þróun og umfang í þeirri búgrein. Ýmsar nýjar búgreinar sem nú eru stundaðar, svo sem skógrækt og kornrækt, eiga ekki aðild að sjóðnum. Jafnframt eru skiptar skoðanir um það innan einstakra búgreina sem enn þá eiga aðild að Bjargráðasjóði hvort þeirri aðild verði haldið áfram. Smám saman hefur því verið að fjara undan starfsemi búnaðardeildar sjóðsins að frumkvæði landbúnaðarins eða vegna ákvarðana einstakra búgreinafélaga.

Þriðja ástæðan fyrir því að leggja eigi Bjargráðasjóð niður, eins og ég mæli nú fyrir um, felast í greiðsluframlögum sveitarfélaganna. Greiðsluframlög sveitarfélaganna til Bjargráðasjóðs hafa í tímans rás þróast þannig að líta má á þau sem beinan styrk eða stuðning við hluta einnar atvinnugreinar í landinu þrátt fyrr að mikilvægi landbúnaðar sem atvinnugreinar sé allt annað og minna en í upphafi 20. aldar. Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur bent á að verkefni Bjargráðasjóðs eru ekki sveitarstjórnarmál heldur atvinnumál. Því sé eðlilegt að landbúnaðarráðuneytið fari með þessi mál í samvinnu við Bændasamtökin. Einnig má benda á að um það bil tveir þriðju hlutar framlaga sveitarfélaga til sjóðsins koma frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu en þar er landbúnaður nánast enginn. Aðeins þær tilteknu búgreinar sem tekið hafa ákvörðun um að greiddur skuli hluti búnaðargjalds til sjóðsins af framleiðslugreinum hafi notið þessa stuðnings. Lögbundin framlög sveitarfélaganna á grundvelli laga nr. 146/1995 hafa því vakið ýmsar spurningar, m.a. um jafnræði og samkeppnisstöðu einstakra atvinnugreina og hvort rétt sé að sveitarfélögum sé skylt samkvæmt lögum að styðja eina atvinnugrein umfram aðra. Þetta sjónarmið sveitarfélaganna hefur notið skilnings eins og lesa má í bókun stjórnar Bjargráðasjóðs frá 12. október 2007 þegar skýr vilji sveitarfélaganna um að hætta aðkomu sinni að sjóðnum var kynntur stjórnarmeðlimum. Sá vilji birtist í niðurstöðu viðamikillar könnunar sem ráðist var í til að fá upp á borðið ríkjandi viðhorf hagsmunaaðila til Bjargráðasjóðs.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um að leggja Bjargráðasjóð niður. Ég hef nú rakið veigamestu rökin fyrir því að það beri að gera. Rökin liggja í því að í fyrsta lagi er tryggingaframboð mun meira en áður var og úrræðin gagnvart hallæri mun meiri en árið 1913 þegar sjóðurinn var stofnaður. Í öðru lagi hafa veigamikil samtök bænda hætt aðkomu sinni að sjóðnum og valið aðrar leiðir. Í þriðja lagi hafa sveitarfélögin ekki áhuga á því lengur að leggja honum til fé.

Þetta eru allt ríkar ástæður til að samþykkja það frumvarp sem ég legg nú fram. Hér er ekki verið að boða endalok á stuðningi við sveitir landsins. Hann verður í boði eftir sem áður eftir fjölmörgum öðrum leiðum, bæði almennum tryggingamarkaði, þegar hættur steðja að og á vegum hins opinbera. Eins er ljóst að rök sveitarfélaganna þess efnis að hér sé um atvinnumál að ræða, leiða til þess að skynsamlegt er að starfsemi Bjargráðasjóðs, ef menn kjósa að halda henni áfram í breyttri mynd, verði alfarið í höndum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis og þá í samráði við Bændasamtökin án afskipta sveitarfélaga.

Það er mikilvægt að hafa í huga að frumvarp það sem ég legg nú fram er í takt við samþykkt stjórnar Bjargráðasjóðs og veigamiklar kröfur hagsmunaaðila. Í samþykkt stjórnar sjóðsins felst sú afstaða stjórnar Bjargráðasjóðs að lögskylduaðild sveitarfélaganna að sjóðnum verði afnumin og að eignum hans og skuldbindingum verði skipt upp milli eigenda sem eru ríkissjóður, sveitarfélögin og Bændasamtök Íslands. Það er í grundvallaratriðum efni frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Að lokum er rétt að hafa nokkur orð um fjárhagslega hlið þessa frumvarps. Nettóeign Bjargráðasjóðs í árslok 2007 var samkvæmt ársreikningi 659,3 millj. kr. Ef sjóðnum yrði skipt upp miðað við þær forsendur kæmu 219,7 millj. kr. í hlut hvers eiganda, þ.e. ríkissjóðs, Bændasamtaka Íslands og sveitarfélaganna, eins og áður sagði. Verði sjóðurinn lagður niður í núverandi mynd í samræmi við efni frumvarpsins er gert ráð fyrir að það taki nokkra mánuði að ljúka uppgjöri á innsendum umsóknum miðað við þær forsendur sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Yrði þá endanlega ljóst hver hlutur eigendanna yrði. Ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir því að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands ísl. sveitarfélaga og að sambandið noti þá eignarhlutdeild m.a. til að kaupa 15% hlutdeild Bjargráðasjóðs í 5. hæð húseignarinnar Borgartúni 30 í Reykjavík sem metin er í ársreikningi 2007 á tæpar 24 millj. kr. og til að mæta ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum Bjargráðasjóðs sem Sambandið yfirtæki. Samtals nema skuldbindingar rúmlega 50 millj. kr. í árslok 2007.

Að því sögðu og á grundvelli þeirra raka sem ég hef tíundað vonast ég til þess, virðulegur forseti, að frumvarp þetta njóti skilnings á hinu háa Alþingi, fái góðar undirtektir og verði eftir reglubundna og málefnalega meðferð þingsins að lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.