135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:08]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Frú forseti. Ég get á margan hátt tekið undir þá ræðu sem ræðumaðurinn hér á undan, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, flutti og vil gera margt af hans orðum að mínum.

Það fyrsta er kannski að þetta er mun stærra mál en það lítur í fljótu bragði út fyrir að vera. Það eru að mér skilst 12 þingdagar eftir af þinginu og hér í dag var beitt fráviki frá þingsköpum til að málið mætti koma á dagskrá. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst þetta afskaplega undarleg vinnubrögð.

Það er ekki svo langt síðan að hér fór öll dagskrá þingsins nánast út um þúfur og umræður um mál í menntamálanefnd, samgöngunefnd og félagsmálanefnd stóðu langt fram yfir miðnætti. Það var gert með þeim rökum að keyra þyrfti þetta í gegn. Ég sé nú ekki að það sé mikið á dagskrá í dag og þess vegna spyr maður sig og veltir fyrir sér af hverju þetta komi fram núna. Ég set fyrirvara við þessi vinnubrögð.

Frumvarpið um brottfall laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, fjallar fyrst og fremst um það að starfsemi Bjargráðasjóðs skuli lögð niður og eignum og skuldbindingum sjóðsins skipt á milli eignaraðila hans í samræmi við ákvæði þessara laga. Og þá veltir maður fyrir sér hvaða vinnubrögð hafi verið viðhöfð vegna þess að þetta er í sjálfu sér ekki lítið mál.

Með leyfi forseta hafa Bændasamtök Íslands lýst undrun sinni yfir því að náið samstarf skuli ekki hafa verið haft við samtökin um þetta mál þar sem svo stórir og víðtækir hagsmunir hafi verið í húfi. Þau setja líka fyrirvara við það að nefnd sem var skipuð af stjórn sjóðsins árið 2006 til að fjalla um framtíðarhlutverk hans hafi aðeins fundað einu sinni og ekki leitað til stjórnar Bændasamtaka Íslands vegna þeirrar vinnu sem virðist hafa farið fram við samningu þessa frumvarps.

Ég minnist þess að þessi nýja ríkisstjórn átti að vera ríkisstjórn sátta, samlyndis og samráðs en á einhvern hátt virðist hún vera og snúast um eitthvað allt annað. Kannski mætti snúa þessu við og segja að hún virðist ætla að beita sér fyrir ósætti, sundurlyndi og óráði. Öllum fullyrðingum um hið fagra Ísland virðist bara hafa verið kastað í ruslið.

Það sem maður veltir fyrir sér er hvað komi í staðinn fyrir Bjargráðasjóð. Ég heyrði á máli hæstv. samgönguráðherra að bændum og þeim sem hagsmuna hafa að gæta verði komið til bjargar eftir fjölmörgum öðrum leiðum. Maður veltir fyrir sér hvaða leiðir um sé að ræða. Hvernig á að fara að því að koma til móts við þá aðila? Það væri ágætt að fá skýr svör um þetta atriði.

Hér hafa verið færð fram nokkur rök um það af hverju Bjargráðasjóður er lagður niður. Það var vísað í að það væru til almannatryggingar, Samband íslenskra sveitarfélaga virðist vilja kljúfa sig út úr honum og ýmsir aðrir hagsmunaaðilar. Vandinn hefur verið sá, og það er kannski ástæðan fyrir tilvist sjóðsins, að það eru ekki til tryggingar sem eru fyllilega sambærilegar við bótareglur Bjargráðasjóðs. Það hefur verið litið svo á, og ég held að það sé rétt, að ekki hafi verið unnt að koma á slíku tryggingakerfi á almennum markaði þó að tryggingafélögin bjóði hinar og þessar tryggingar af ýmsu öðru tagi en Bjargráðasjóðurinn, svo sem brunatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar. Vissulega er það þannig að með breyttum búskaparháttum og stærri búum hafa æ fleiri bændur keypt slíkar tryggingar.

Ég held að það sé rétt að endurskoða þetta fyrirkomulag og benda kannski á að frumvarpið byggist á samþykkt stjórnar Bjargráðasjóðs frá 12. nóvember 2007 þar sem lagt var til að unnið yrði að tillögum um breytingar á starfsemi og rekstri sjóðsins og að í þeirri vinnu yrði tekið tillit til óska um að fjármögnun og rekstur sjóðsins yrði fært frá sveitarfélögunum.

Samþykktin snerist ekki um að leggja sjóðinn niður heldur breyta honum. Ég held að það sé ráð og að betur þurfi að fara yfir þetta mál, kannski frá upphafi.

Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni þegar hann benti réttilega á að atvinnumálin eru að sjálfsögðu sveitarstjórnarmál. Það eru mjög skrýtin rök sem koma í kjölfar athugasemda með frumvarpinu um að tveir þriðju hlutar framlaga sveitarfélaga til sjóðsins komi frá íbúum höfuðborgarsvæðisins þar sem landbúnaður sé þar nánast enginn. Ég held að það þurfi að fara aðeins betur yfir þetta. Það er vissulega þannig að höfuðborgin og landsbyggðin þurfa hvort á öðru að halda, hvorugt getur lifað án hins aðilans. Það að annar þeirra notar þau rök að landbúnaður komi Reykjavík eða höfuðborgarsvæðinu lítið við finnst mér ekki góð rök.

Ég vil í sjálfu sér ekki flytja um þetta lengri ræðu. Ég endurtek orð mín um að betur verði farið yfir þetta mál í heild sinni. Það eru fyrirhugaðar breytingar á landbúnaðarkerfinu og maður óttast svolítið vegferð Samfylkingarinnar í þeim efnum. Þetta snýst að mínu mati um fæðuöryggi þjóðarinnar og ég bara vona að Sjálfstæðisflokkurinn standi í lappirnar í þeim málum vegna þess að það er mjög mikilvægt að talsmenn bænda finnist enn þá meðal ríkisstjórnarflokkanna.