135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður fagnar því að ekki þurfi að keyra þetta áfram. Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan og það þarf svo sem ekkert að ræða neitt meira um það. En varðandi samráð við Bændasamtökin þá eiga, eins og ég sagði áðan, Bændasamtökin tvo fulltrúa í stjórn Bjargráðasjóðs og í þessu frumvarpi er því lýst hvernig stjórn sjóðsins skipaði nefnd og vann þetta áfram. Þá hlýtur það að hafa verið gert í fullu samráði við stjórn Bændasamtakanna af fulltrúum Bændasamtakanna í stjórninni.

Hitt varðandi eignaskiptinguna og hvernig þessi eignaskipting hafi orðið til frá upphafi þá sé ég það ekki í frumvarpinu, virðulegi forseti, og kann ekki að segja frá nákvæmlega hvernig innborganir og annað slíkt hafa farið inn þannig að það verður þá bara hlutverk samgöngunefndar að kalla eftir því ef hún vill fara nánar í það til þess að skoða hvernig þessi eignaskipting er.