135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Bjargráðasjóður.

587. mál
[16:58]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá er það bara komið skýrt fram hér og ég þakka fyrir það skýra svar. Hæstv. samgönguráðherra hafði ekki samráð við Bændasamtökin. Hann hafði til þess fimm mánuði en kaus að gera það ekki. Þá er þetta mál lagt fram án þess að hafa samráð við Bændasamtökin. Þá vitum við það.

Varðandi það að finna út úr því hvernig eigi að taka við þeim skuldbindingum sem Bjargráðasjóður hefur og verða í lausu lofti eftir að hann er lagður niður vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki miklu eðlilegra að það verði gengið frá því áður en sjóðurinn verður lagður niður — sveitarfélögin þurfa ekkert endilega að vera með í því — og þá verði farið yfir hvernig eigi að fara með tryggingasjóði einstakra búgreina? Bændur vita hvað þeir hafa í dag. Þeir vita ekkert hvað kemur. Er ekki eðlilegt að fara yfir það áður en sjóðurinn er lagður niður og gera þetta í þeirri röð? Það væri langeðlilegast, virðulegur forseti.