135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna grafalvarlegrar stöðu í efnahagsmálum. Við höfum nú í þessum sal hlýtt á þau orð ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða að verið sé að undirbúa aðgerðir og verið sé að ræða hvað skuli gert og reyndar nú upp á síðkastið mjög dularfullar yfirlýsingar, vil ég segja, um að ekki sé hægt að upplýsa frá degi til dags hvað sé í undirbúningi. En þjóðin bíður, hún bíður þess að eitthvað verði gert og þess vegna má kannski segja að mjór sé mikils vísir þegar nú hafa loksins birst efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, en mér þykir það frekar bera vott um eitthvert undarlegt skopskyn þegar boðað er að heilum 4 millj. kr. eigi að verja til að stemma stigu við verðbólgu í landinu.

Er ríkisstjórn Íslands að gera at í efnahagsástandinu? Eða er það ætlan manna að 4 millj. kr. hafi raunveruleg áhrif á verðbólguþróunina sem er komin í tveggja stafa tölu og við stefnum hraðbyri inn í ástand sem verður æ verra að ráða við. Bæði við framsóknarmenn og raunar fleiri í stjórnarandstöðunni höfum margítrekað lagt fram tillögur í vetur um hvað hægt væri að gera í þessum málum. Við höfum talað fyrir því að unnið verði að þjóðarsátt. Sama hefur verkalýðshreyfingin gert og það eru alveg hreinar línur að það er hægt að stemma stigu við verðbólgunni. Við búum við sterkan ríkissjóð og það er í rauninni það eina sem við höfum heyrt frá hæstv. ríkisstjórn að hún eigi sterkan ríkissjóð — ég sakna þess nú að það er enginn úr ríkisstjórninni hér í dag — en það þarf að nota hann. (Forseti hringir.) Ég óska eftir svari við því hvort það sé eining um það algera aðgerðaleysi og þá 4 millj. kr. aðgerð sem nú er farið út í í efnahagsmálum.