135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:38]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur setið að völdum í rétta 11 mánuði. Staðan í efnahagsmálum er þannig núna að verðbólgan síðustu 12 mánuði er 11,8% og hefur ekki verið hærri í 18 ár. Mestur hlutinn af þessari verðbólgu hefur komið til á síðustu mánuðum. Á síðustu þremur mánuðum hefur hækkunin verið 6,4% — 6,4% verðbólga á síðustu þremur mánuðum af 11,8% verðbólgu á síðustu 12 mánuðum og bara á síðasta eina mánuði er verðbólgan 3,4%. Það er alveg ljóst að nú eru komin þau vatnaskil að öll ábyrgð á stöðu efnahagsmála um þessar mundir er komin yfir á herðar núverandi ríkisstjórnar. Þessar tölur bera það með sér að vandinn hefur farið vaxandi eftir því sem ríkisstjórnin hefur setið lengur. Í stað þess að ný ríkisstjórn hefði átt að hafa stöðu til að koma stefnu sinni í framkvæmd, skynsamlegri stefnu sem hefði tekið á þeim tilefnum sem undirliggjandi voru og hefði við þessar aðstæður í dag átt að skila lágri verðbólgu ef ríkisstjórnin hefði haft skynsamleg efnahagsmarkmið og einhvern innri styrk til að fást við stjórn efnahagsmála hér á landi.

Það sem blasir við er að ríkisstjórnin er á öfugri leið. Hún flatrekur undan vindinum. Það er enginn skipstjóri um borð, virðulegi forseti, og hvar er áhöfnin sem á að róa með skipstjóranum? Það er það sem vantar, virðulegi forseti, bæði skipstjóra og áhöfn til að stjórna þjóðarskútunni í gegnum þá stöðu sem við ráðum að sumu leyti ekki við. (Gripið fram í: Hér situr hásetinn.) En hér situr einn háseti, virðulegi forseti, með hendur í vösum.