135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú staða sem komin er upp í efnahagslífi þjóðarinnar er afar alvarleg og við heyrðum hér eina nýja söguskýringu. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði að hér væri of mikill kaupmáttur, lítið verðskyn og lítil samkeppni. Þetta er alveg ný söguskýring á því efnahagsástandi sem við erum að upplifa. Hið rétta er að hér situr vanmáttug ríkisstjórn sem hefur ekkert gert, það er hægt að skrifa hluta af ástandinu á hana og hluta á erfiðar aðstæður erlendis, en mikill hluti skýringarinnar er framtaksleysi ríkisstjórnarflokkanna.

Hér var ríkisstjórninni líkt við skútu án skipstjóra og áhafnar. Ég vil leyfa mér að líkja ríkisstjórninni við strúta sem stinga höfðinu í sandinn. Þetta er ríkisstjórn sem hefur tekið upp sið strúta, að stinga höfðinu í sandinn og gera ekki neitt. Það er engin lína. Forsætisráðherra segir að það sé erfitt að bregðast við vandanum af því að hann komi utan frá. Það er ekki alveg rétt hjá honum, það er einungis hluti vandans. Hæstv. utanríkisráðherra segir að við eigum að grípa inn í málin og aðstoða bankana þannig að það eru gefin fyrirheit um að gripið verði til aðgerða og það ganga sögur um að talað hafi verið við norræna banka. Það kemur ekkert út úr því. Við vitum ekki hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hún ætlar ekki að gera neitt, sýnist okkur. Hún kemur með 4 millj. í verðlagseftirlit. Það er allt of lítið, virðulegi forseti. Ég tel að það verði að gera eins og Seðlabankinn hefur svarað okkur framsóknarmönnum, við lögðum fram fyrirspurnir til Seðlabankans og þeir segja að fara verði yfir forsendur fjárlaga. Því neituðu formaður fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra fyrir viku síðan en nú verður að fara í það. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd verði kölluð saman hið fyrsta til að fara yfir forsendur fjárlaga sem eru algerlega brostnar.