135. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Árna Páls Árnasonar hér á undan var athyglisverð. Hv. þingmaður kemur í ræðustól og kallar eftir ábyrgð fyrirtækjanna í samfélaginu á því ástandi sem nú er uppi í efnahagslífinu. Hvað sögðu þessi sömu fyrirtæki á haustmánuðum þegar ný ríkisstjórn var að myndast við að móta fjárlög ársins 2008? Slappið af, sýnið aðhald í ríkisfjármálum því að 20% hækkun á útgjaldaramma ríkissjóðs á árinu 2007–2008 gaf náttúrlega tóninum um að það yrði ekki stöðugleiki í íslensku samfélagi á árinu 2008. (Gripið fram í: … kosningar.) Með því að slá þann tón ber ríkisstjórnin ábyrgð á því hver staða efnahagsmála er í dag. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust af hv. þm. Árna Páli Árnasyni að koma hér upp og kenna fólkinu í landinu eða fyrirtækjunum um þá stöðu sem er uppi. Ríkisstjórnin hefur sýnt fullkomið ábyrgðarleysi í þessum málaflokki. Og ég ætla að minna hv. þingmann á rauða kverið sem heitir Jafnvægi og framfarir , en það er rit sem Samfylkingin gaf út í aðdraganda síðustu kosninga.

Hvað hafa Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sýnt á fyrsta ári sínu í meiri hluta á þingi? Algjört ábyrgðarleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verðbólgan er nú hærri en hún hefur verið í 20 ár. Við erum með hæstu stýrivexti í heimi. Skuldir heimilanna eru að aukast og kaupmáttur almennings og kannski ekki síst aldraðra og öryrkja er að stórskerðast þessi missirin. Svo koma stjórnarliðar upp og segja að nú eigi almenningur og fyrirtækin að fara að sýna ábyrgð. Ja, þvílíkur málflutningur. Ríkisstjórnin er greinilega gjörsamlega stikkfrí ef marka má málflutning sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna í þessari umræðu. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin ber ábyrgð á undirliggjandi óstöðugleika í samfélaginu. Við því varaði OECD, við því varaði Seðlabankinn. (Forseti hringir.) En það er engin áhöfn og engin skipstjóri á ríkisstjórnarfleyinu. Okkur rekur stjórnlaust.